Á að vera hluti af okkar venjulega viðbúnaði

„Ég upplifi það, ég er nú nýlent í Reykjavík, að …
„Ég upplifi það, ég er nú nýlent í Reykjavík, að fólk úti um land allt er búið að vera að fara yfir sínar áætlanir til þess að mæta svona veðrum,“ segir Katrín, sem er nýkomin heim úr hringferð Vinstri grænna í kjördæmaviku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú eru allir held ég mjög viðbúnir, ekki síst eftir það sem gekk hér á í desember. Við erum búin að tala um fátt annað en veður undanfarnar vikur, en auðvitað er það svo líka eins og fram hefur komið að það er ýmislegt sem við þurfum að gera tölvuert betur, til að mynda raforku- og fjarskiptainnviðum, sem mun taka einhvern tíma að laga þó við við förum í það verkefni að flýta framkvæmdum.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Aftakaveðri álíka því sem gerðist í desember er spáð á landinu á morgun.

„Ég upplifi það, ég er nú nýlent í Reykjavík, að fólk úti um land allt er búið að vera að fara yfir sínar áætlanir til þess að mæta svona veðrum og við sjáum að stofnanir eru að gera það. Þetta á auðvitað bara að vera hluti af okkar venjulega viðbúnaði, það á ekki að þurfa sérstaka fundi til, þegar svona spá liggur fyrir,“ segir Katrín, sem er nýkomin heim úr hringferð Vinstri grænna í kjördæmaviku.

„Átakshópurinn sem ég setti af stað eftir óveðrið í desember hefur verið að störfum síðan og verið að funda með aðilum og á að skila af sér í lok þessa mánaðar, febrúar. Það mun standast.“

„Ég sé fyrir mér að við munum flýta framkvæmdum á ýmsum sviðum í kjölfar þessara tillagna, en hins vegar held ég einmitt að við séum öll komin í æfingu eftir veðrið í desember og svo vonar maður bara að það verði engin slys á fólki í þessu veðri.“

mbl.is