Meðalvindhraðinn í Eyjum yfir 40 m/s í alla nótt

Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum að störfum um kl. 3 í nótt, …
Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum að störfum um kl. 3 í nótt, en þá var álklæðning að fjúka utan af húsi í bænum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur, við erum búin að vera í rosalega miklum vindi hérna, það er alveg ofsalega hvasst,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sem stödd er í aðgerðastjórn björgunarsveita í bænum. Björgunarsveit og lögregla hafa sinnt 18 verkefnum vegna foktjóns í nótt og í morgun og enn bætist í.

„Nýjasta verkefnið var bara að koma í hús, þannig að þetta er enn þá í gangi,“ segir Páley, en ýmiss konar foktjón hefur orðið í Eyjum í nótt. Alvarlegasta málið snerist um þak á húsi í bænum, sem var að fjúka af í heilu lagi.

Hviður allt að 58 m/s

„Við erum búin að vera hérna í 43 m/s, stöðugum vindi, og hviðurnar hafa farið upp í 58 m/s,“ segir Páley um veðurofsann, en mikil úrkoma hefur verið með fárviðrinu í nótt og úti er blautt og flughálka á götum.

„Við héldum að þetta ætti að fara að verða búið að ná hámarki, en við erum ekki alveg viss með það,“ segir Páley.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hér vinstra megin á mynd, …
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hér vinstra megin á mynd, í aðgerðastjórn í nótt. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Engin slys hafa orðið á fólki, enda nær allir heima hjá sér nema þeir um það bil tuttugu björgunarsveitarmenn og fimm lögreglumenn sem hafa verið að störfum í nótt.

„Við náum vel að anna þessu og erum nokkuð róleg yfir þessu,“ segir lögreglustjórinn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert