Fundur Fíh og ríkisins hafinn

Samningafundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkissins hófst klukkan 10:30. …
Samningafundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkissins hófst klukkan 10:30. Fundurinn er að sjálfsögðu fjarfundur en Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari er í karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefnd ríkisins hófst klukkan hálfellefu hjá ríkissáttasemjara. Síðasti fundur í deilunni var fyrir um hálfum mánuði, eða 24. mars. 

Kjaraviðræðum hjúkrunarfræðinga var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar síðastliðnum en um mánaðamótin var ár liðið síðan kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við fjármálaráðherra rann út. Sá samningur var Gerðardómur sem úrskurðað var um árið 2015 eftir um tíu daga verkfall hjúkrunarfræðinga. 

Fimm fundir hafa verið undir stjórn ríkissáttasemjara. Líkt og Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, og Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs, segja í grein í Morgunblaðinu sem birtist fyrir helgi hafa einhverjir áfangar náðst, en hins vegar er staðan sú að það tilboð sem Samninganefnd ríkisins hefur lagt fyrir hjúkrunarfræðinga er varðar laun hjúkrunarfræðinga til ársins 2023 er með öllu óásættanlegt.“ 

Kjaradeila hjúkrunarfræðinga við ríkið hefur verið mikið í umræðunni undanfarna …
Kjaradeila hjúkrunarfræðinga við ríkið hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga vegna kórónuveirunnar og útbreiðslu veirunnar hér á landi. Kjarasamningar hjúkrunarfræðinga hafa verið lausir í rúmt ár. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari, segir kjaraviðræðum hjúkrunarfræðinga miða vel og hafa óformlegir fundir farið fram undanfarna daga sem hafa gengið ágætlega að hans sögn, auk þess sem samkomulag hefur náðst um vinnufyrirkomulag fólks í vaktavinnu, eftir margra ára viðræður.

Vaktaálagsauki og fyrirkomulag hans er meðal þess sem án efa verður rætt á fundinum en í ljósi kórónuveirufaraldursins ákváðu stjórnvöld að hætta við afnám vaktaálagsauka og hann yrði framlengdur til næstu mánaða að því er kom fram í bréfi stjórnvalda til Landspítalans á föstudag. Vaktaálagsauki nær þó einungis til starfsmanna Landspítalans. 

Alma D. Möller landlæknir sem og forstjórar allra opinberra heilbrigðisstofnana á landinu hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni og skorað á samninganefndir að komast að samkomulagi. 

Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson, nýskipaður ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert