Um 90% starfsmanna sagt upp störfum

Forstjórinn vonar að eftirlit hins opinbera verði meira með leiðsögumönnum …
Forstjórinn vonar að eftirlit hins opinbera verði meira með leiðsögumönnum erlendra fyrirtækja hér á landi þegar ferðamenn koma til landsins aftur á nýjan leik. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 90% starfsmanna Arcanum Fjallaleiðsögumanna hefur verið eða verður sagt upp störfum. Í mars varð um 70% tekjutap og 100% í apríl og verður einnig í maí og júní. Til samanburðar störfuðu um 160 manns hjá fyrirtækinu á sama tíma í apríl í fyrra. Eftir uppsagnir munu um 10-20 manns starfa hjá fyrirtækinu, samkvæmt Arnari Bjarnasyni, forstjóra fyrirtækisins.  

„Við nýttum strax hlutabótaleiðina í mars. Um þessi mánaðamót er gert upp við starfsmenn sem voru með mánaðaruppsagnarfrest. Starfshlutfall allra starfsmanna var lækkað niður. Við getum vonandi ráðið hluta starfsmanna aftur til okkar í síðsumars eða í haust,“ segir Arnar. Hann segist vongóður um að hlutirnir eigi eftir að breytast í júní og júlí. 

Arnar Bjarnason, forstjóri Arcanum Fjallaleiðsögumanna.
Arnar Bjarnason, forstjóri Arcanum Fjallaleiðsögumanna. Ljósmynd/Aðsend

Aðgerðapakki stjórnvalda sem var kynntur í gær mun nýtast þessu fyrirtæki vel. „Þetta er algjört lykilútspil og mjög góð byrjun. Þetta var orðið ansi þungt,“ segir hann. Hlutabótaleiðin er sá þáttur sem nýtist fyrirtækinu best í aðgerðum stjórnvalda. Brúarlánin nýtast fyrirtækinu ekki eins og staðan er núna. Arnar segir að eins og brúarlánið blasi við honum hafi stjórnvöld og bankar ekki talað saman um útfærslu á þessu. „Þetta getur verið flókið í útfærslu um hverjir eiga að lifa og hverjir ekki,“ segir hann.

Fyrirtækið hefur gert áætlanir um fjármagn sem það þarf til að lifa af fram að áramótum. Þær verða lagðar fyrir stjórn fyrirtækisins sem og banka en að öðru leyti vildi Arnar ekki tjá sig um þær upphæðir. Fyrirtækið er ekki skuldsett. „Við erum samt að reyna að brúa einn mánuð í einu. Við vorum að klára núna þessi mánaðamót. Þetta er rosalega erfið staða,“ segir hann.

Boðið verður upp á ýmsar ferðir á vegum fyrirtækisins í …
Boðið verður upp á ýmsar ferðir á vegum fyrirtækisins í sumar.

Fyrirtækið hefur boðið upp á fjölmargar og fjölbreyttar ferðir um allt land síðustu ár. Spurður hvar verði skorið niður hjá fyrirtækinu segir hann að styttri ferðir út frá höfuðborgarsvæðinu  muni standa eftir. Það eru ferðirnar sem skipta máli og eru söluhæfari. „Við erum alltaf að selja ferðir langt fram í tímann eins og til ársins 2021 og 2022. Inn í því eru lengri ferðir,“ segir hann. 

Bjóða upp á ferðir fyrir Íslendinga í sumar

Ferðir sem miða að Íslendingum verða á boðstólnum í sumar. Það eru meðal annars vélsleða- og fjórhjólaferðir ásamt ýmsum gönguferðum eins og Fimmvörðuháls, Laugavegur, Skaftafell, Núpsstaðaskógur, Hvannadalshnúk ofl. „Við erum búin að búa til lausnir sem henta Íslendingum. Við göngum samt alveg blint í sjóinn,“ segir hann.

Í þessu samhengi bendir hann á að á meðan atvinnuleysi verði hátt hér á landi næstu mánuði ef ekki lengur er fyrirséð að reynt fólk innan ferðaþjónustunnar eigi eftir að bjóða fram þekkingu sína og starfsframtak mögulega eins ódýrt og hægt er til þess hreinlega að lifa af. „Það vita allir að þannig gengur bransinn. Þá verður til tilboð á markaði sem erfitt er fyrir venjulegt fyrirtæki að keppa við,“ segir hann.

Fyrirtækið dregur saman seglin eins og önnur ferðaþjónustufyrirtæki.
Fyrirtækið dregur saman seglin eins og önnur ferðaþjónustufyrirtæki. mbl.is/Árni Sæberg

Hann spáir því að fleiri leiðsögumenn sem eigi eftir að starfa sjálfstætt en ekki innan fyrirtækja líkt og þeir voru farnir að gera. Margir hverjir eigi því eftir að hverfa aftur til þess að starfa án mikillar yfirbyggingar líkt og þeir gerðu(r) áður en ferðamannastraumurinn barst af miklum krafti hingað til lands. „Sjálfsbjargarviðleitin er mikil hjá þessari stétt og fullt af hæfileikaríku fólki,“ útskýrir hann. 

Vonar að ekki þurfi að keppa við erlenda leiðsögumenn í framtíðinni

Spurður um framtíðina segir hann hana óráðna enda sé hann ekki forspár. Hins vegar telur hann að þegar ferðamenn fari að koma aftur til landsins fyrr en menn halda. Það þarf að tala jákvætt og uppbyggilega. Hann vonar að þeir sem starfi hér á landi í ferðaþjónustu m.a. sem leiðsögumenn njóti góðs af því en þurfi ekki að sjá á eftir undirboði slíkra ferða í hendur erlendra fyrirtækja líkt og tíðakast hefur hér á landi síðustu ár. 

„Við vorum alltaf að benda stjórnvöldum á þetta. Að hingað kæmu leiðsögumenn á vegum erlendra fyrirtækja sem fengu lítið brot af þeim launum sem þeir íslensku fengju. Þeir nytu góðs af uppbyggingu innviða hér í ferðaþjónustunni en fyrirtæki og stjórnvöld hefðu borgað brúsann,“ segir hann.  Hann vonar að eftirlit hins opinbera með þessari starfsemi verði aukið þegar fram í sækir. 

mbl.is