„Gríðarlegar“ upphæðir sem skila sáralitlu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálafræðingur sem hefur rannsakað Booking.com gaumgæfilega undanfarin sjö til átta ár segir að Ferðamálastofa þurfi að eyða gríðarlegum fjármunum til þess að fá auglýsingar sínar ofar en þær frá Booking.com og öðrum bókunarvélum á leitarvélinni Google. Þannig kasti Ferðamálastofa fjármunum sínum í raun á glæ með því að reyna að auglýsa á Google og flytji fé um leið út úr íslenska hagkerfinu.

Ferðamála­stofa stefn­ir að því að kaupa aug­lýs­ing­ar hjá er­lend­um ­miðlum til þess að aug­lýsa her­ferð sína í sum­ar, sem miðar að því að hvetja Íslend­inga til þess að ferðast um landið vítt og breitt. 34% auglýsingafjár Ferðamálstofu á að fara í Google Display, Youtube og Google-leit. Þá eiga 37% að fara í auglýsingar á Facebook og Instagram, 20% í skjáauglýsingar og útvarp og 4% í vefborða á innlendum miðlum.

„Ferðamálastofa er að fara í rosalega herferð hérna heima í að selja Ísland fyrir Íslendinga. Á sama tíma er hún að auglýsa á erlendum miðlum eins og t.d. Google og Facebook sem borga enga skatta á Íslandi,“ segir Hermann Valsson, ferðamála- og kerfisfræðingur sem hefur mikla reynslu af ferðaþjónustunni. 

Stóru aðilarnir búnir að kaupa svæðið

„Þegar maður skoðar sýnileika gistihúsa á Íslandi á Google þá er Booking.com búið að hertaka þó nokkuð margar fyrstu niðurstöður í formi auglýsinga. Það er borðleggjandi að þessir stóru aðilar eru búnir að kaupa þetta svæði. Niðurstöðurnar sýna það,“ segir Hermann.

Ferðamálastjóri sagði fyrr í vikunni að nauðsynlegt væri að auglýsa á samfélagsmiðlum ef herferð Ferðamálastofu ætti að skila tilætluðum árangri. Hermann segir að til séu aðrar leiðir sem vert sé að keyra samhliða auglýsingum á samfélagsmiðlum. Ekki ætti að setja of mikla áherslu á auglýsingar á samfélagsmiðlum sem þó beri frekar árangur en þær auglýsingar sem keyptar eru á Google. Með kaupum á auglýsingum á samfélagsmiðlum renni féð þó út úr íslenska hagkerfinu, þar sem því væri betur varið.

Hermann segir að vænlegast væri að fara leiðir sem eru atvinnuskapandi sem og að auglýsa á innlendum miðlum. 

„Ef Ferðamálastofa ætlar að fara í samkeppni við Booking.com þá þarf hún að eyða gríðarlegum upphæðum í Google sem skila sáralitlu. Aðrar leiðir eru til.“

Hermann bendir einnig á að þegar fólk bókar í gegnum Booking.com fara 22 - 26% greiðslunnar í vasa fyrirtækisins og úr vasa ferðaþjónustuaðilans. Hann telur því að Ferðamálastofa ætti að gera það sem í hennar valdi stendur til að aðstoða Íslendinga við að bóka beint hjá ferðaþjónustuaðilum en ekki í gegnum bókunarvélar. 

Booking.com tekur 15-18% í þóknun á Íslandi, 15% er grunnþóknunin sem allir greiða en svo eru sumir rekstraraðilar sem eru partur af prógrammi sem heitir Preferred og felur það í sér aukna markaðssetningu á eigninni, hærra sæti í leitarniðurstöðum o.s.frv. Fyrir það er þóknunin 18%,“ segir í athugasemd sem barst við fréttina. 

„Það sem er svo hættulegt og sorglegt í þessu er að íslensk hótel og gistihús munu missa að meðaltali  22-26% af hverri bókun sem fer þar í gegn.“

Hermann vill meina að vandi Ferðamálastofu liggi í því að hún sé ekki markaðsdrifin heldur rannsóknardrifin stofnun og sé í raun ekki algjörlega í stakk búin fyrir markaðsátak sem þetta. Þar sé margt frábært starfsfólk sem þekki vel til tölfræði varðandi ferðamenn, leyfismál og gæðamál ferðaþjónustunnar en hafi hvorki mikla þekkingu né reynslu af sölu- og markaðsherferð eins og þeirri sem sé í undirbúningi og það komi til dæmis fram í því hvernig Ferðamálastofa sé að skipuleggja auglýsingar.

„Miðað við núverandi aðstæður þá er Ferðamálastofa besti kosturinn sem við eigum til og þeir hafa aðgang að fjármagni frá ríkisstjórninni, við verðum öll að styðja 100% við bakið á þeim í þessu verkefni og óska þeim alls hins besta.“

Athugasemd bætt inn klukkan 10:55 - lesandi benti mbl.is á að samkvæmt reglum Booking.com er þóknunin 15% og fer hæst í 18% hjá Booking, ekki 22-26% líkt og Hermann heldur fram. Óljóst er þó á heimasíðu Booking hvert hámark getur verið eftir svæðum.

mbl.is