„Vonandi erum við of svartsýn“

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. mbl.is/Golli

Samkvæmt spá Seðlabankans í Peningamálum sem komu út í morgun er aðeins gert ráð fyrir að hingað til lands muni koma 50 þúsund ferðamenn á síðari hluta ársins, það er frá júlí til loka desember. Það þýðir að heildarfjöldi ferðamanna þetta árið yrði aðeins um 400 þúsund og að þeim myndi fækka um 80% frá síðasta ári. Miðað við þetta hefur bankinn litla trú á því að aflétting á sóttkvíarskyldu, sem taka á gildi 15. júní, muni hafa mikil áhrif á fjölgun ferðamanna á ný.

Til að setja þennan fjölda í samhengi yrði fjöldi ferðamanna í ár miðað við þessa spá svipaður og hann var árið 2005. Þá þýða 50 þúsund ferðamenn á seinni hluta ársins að rúmlega 8.300 ferðamenn kæmu hingað til lands í hverjum mánuði að meðaltali, eða rúmlega 270 á hverjum degi, en það er rúmlega farþegafjöldinn sem ein Boeing 767-vél getur borið, eða ein og hálf Boeing 757-vél.

Úr glærukynningu Þórarins í dag. Grafið sýnir vel það hrun …
Úr glærukynningu Þórarins í dag. Grafið sýnir vel það hrun sem hefur orðið í komu ferðamanna síðan faraldurinn kom upp. Graf/Seðlabankinn

Opnun landamæra ekki það sama og að stórir hópar ferðamanna komi

Á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun var Þórarinn spurður út í þessa spá bankans og hvort hún hefði verið gerð áður en yfirvöld gáfu út að farin yrði sýnatökuleið frá og með 15. júní. Þórarinn sagði að spáin hafi verið gerð fyrir þann tíma, en að bankinn hafi vitað af því að það stóð til. Sagði hann bankann ekki hafa talið tilefni til að endurskoða spána þrátt fyrir að þetta hafi legið fyrir.

„Að opna landamærin hér er ekki það sama og hér komi inn ferðamenn endilega í stórum hópum. Vonandi erum við of svartsýn og það muni koma inn fleiri ferðamenn til landsins heldur en við erum að gera ráð fyrir, en okkur þótti ekki tilefni til að endurskoða spána okkur út af þessu,“ sagði Þórarinn á fundinum.

Úr glærukynningu Þórarins í dag. Samkvæmt spá bankans verða ferðamenn …
Úr glærukynningu Þórarins í dag. Samkvæmt spá bankans verða ferðamenn á síðari hluta ársins aðeins um 50 þúsund. Graf/Seðlabankinn
mbl.is