Friðlýsing eða kolefnisbinding?

Fyrirhugað er að friðlýsa votlendissvæði Fitjaár í Skorradal og alls bárust 13 athugasemdir og ábendingar við fyrirhugaða friðlýsingu. Meðal annars er bent á að betra hefði verið að stækka svæðið þannig að það næði að Vatnshornsskógi sem var friðlýstur 2009. Skógræktin er ekki á sama máli en hún hefur umsjón með jörðinni Vatnshorn sem er í eigu ríkisins. Telur Skógræktin réttara að gróðursetja skóg á svæðinu þar sem það vanti fleiri tré til kolefnisbindingar. Ef svæðið er friðlýst er ekki heimilt að gróðursetja þar. 

En eins og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri bendir á í samtali við mbl.is fara ólíkar leiðir náttúruverndar ekki alltaf saman, svo sem friðlýsing eða kolefnisbinding.

Sjá nánar hér

Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar. Svæðið gegnir fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum og er meðal annars mikilvægt búsvæði plöntu- og fuglategunda. Friðlýsingin miðar jafnframt að því að vernda og viðhalda tegundafjölbreytni svæðisins og vistfræðilegum ferlum sem og stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu tegunda og fræðslu um votlendissvæðið.

Frá Skorradal.
Frá Skorradal. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Búið er að auglýsa tillögu að friðlýsingu svæðisins þar sem öllum gafst kostur á að senda inn athugasemdir og ábendingar. Næsta skref er að klára úrvinnslu og í kjölfarið verður málinu vísað til ráðherra til ákvörðunar að sögn Hildar Vésteinsdóttur, teymisstjóra friðlýsinga og starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun.

Vatnshorn er landnámsjörð sem kemur fyrir í Landnámu og Íslendingasögunum, meðal annars þjóðleiðin um Síldarmannagötur. Síldarmannagötur liggja um hlíðina meðfram bæjarlæknum í Vatnshorni.

Vatnshornsbrekkan
Vatnshornsbrekkan Ljósmynd/Aðsend

„Framdalurinn” eða fram-Skorradalur er forn málvenja yfir fremsta (innsta) hluta Skorradals, sem landfræðilega tilheyrir sókn Fitjakirkju. Framdalurinn er austasti hluti Skorradalsvatn auk dalsins þar fyrir innan, segir í tillögu að verndarsvæði í byggð sem er að finna á vef Skorradals. 

Framdalurinn var staðfestur sem nýtt verndarsvæði í byggð af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, í febrúar. 

Verndarsvæði í byggð eru afmörkuð svæði með sögulegt gildi þar sem ákveðið hefur verið að stuðla að vernd og varðveislu byggðar. 

Óheimilt að gróðursetja í friðlandi

Eitt af því sem gerðar eru athugasemdir um í athugasemdnum við friðlýsingu er að stækka ætti friðlýsingarsvæðið til að koma í veg fyrir að barrtré verði gróðursett þar og eins sé lúpína farin að dreifa úr sér. Tekið skal fram að ekki eru uppi hugmyndir um að gróðursetja barrtré í votlendinu heldur í Vatnshornshlíðinni sem ekki er innan þess svæðis sem á að friðlýsa heldur er á milli þess svæðis sem var friðlýst árið 2009 og þess svæðis sem til stendur að friðlýsa. 

Tekið er fram í svari Umhverfisstofnunar að ekki sé gert ráð fyrir gróðursetningu barrtrjáa innan marka svæðisins sem til stendur að friðlýsa enda óheimilt að gróðursetja plöntur á svæðinu. 

„Hvað varðar lúpínu er ákvæði í sömu grein tillögu að auglýsingu að óheimilt sé að sleppa eða dreifa framandi lífverum, þ.m.t. rækta framandi plöntutegundir. Lúpína flokkast sem framandi plöntutegund. Almennt er það þannig á friðlýstum svæðum að unnið er að upprætingu slíkra tegunda,“ segir í svari Umhverfisstofnunar. 

Lögðust gegn friðlýsingu brekkunnar

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í samtali við blaðamann mbl.is staðfestir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri að Skógræktin hafi lagst gegn friðlýsingu brekkunnar (stundum nefnd Vatnshornshlíð eða Vatnshornsbrekka) í landi Vatnshorns í Skorradal.

Skógræktin og Skorradalshreppur unnu saman að því að kaupa jörðina Vatnshorn árið 1995 til að forða Vatnshornsskógi frá því að verða skipt upp í sumarhúsalóðir segir Þröstur.

Skógræktin lét í framhaldinu reisa girðinguna sem nú friðar skóginn fyrir beit og lagði til að skógurinn yrði settur á fyrstu náttúruverndaráætlun umhverfisráðuneytisins árið 2004. Vatnshornsskógur var formlega lýstur friðland samkvæmt náttúruverndarlögum í byrjun árs 2009. Vatnshornsskógur er vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi.

Helsta markmið friðlýsingarinnar er að framvinda skógarins fái að halda áfram án inngripa þannig að með tímanum líkist skógurinn þeim skógum sem tóku á móti landnámsmönnum fyrir um meira en 1.100 árum. Vatnshornsskógur verður þannig ómetanleg uppspretta þekkingar á náttúrlegum birkiskógavistkerfum að því er segir á vef Skógræktarinnar.

Þröstur segir að Vatnshornsskógur sé í umsjón Skógræktarinnar en með aðkomu Umhverfisstofnunar vegna friðlýsingarinnar.

„Vatnshornsskógur er í ysta hluta jarðarinnar. Þar fyrir innan tekur við skóglaus brekka,  svo nefnd Vatnshornsbrekka, það var alltaf hugmyndin hjá okkur í Skógræktinni að gróðursetja í brekkunni og rækta þar skóg. Suðaustan við Vatnshornsskóg er jörðin Bakkakot sem hefur verið í eigu Skógræktarinnar í áratugi en þar er furu- og greniskógur í umsjá Skógræktarinnar. Þar á milli er þessi skóglausa brekka, um það bil 3 km að lengd,“ segir Þröstur.

Vildi stækka friðlandið

Þegar Umhverfisstofnun kynnti áform um friðlýsingu votlendis og óshólma Fitjaár í Skorradal lagði Hulda Guðmundsdóttir annar eigandi jarðarinnar Fitjar, til að að fellt yrði undir eitt friðland Vatnshornsskóg og flóðslétta Fitjaár og brekkuna þar á milli.

Í viðtali við Morgunblaðið í nóvember segir hún að þar sé að koma upp mikið af birki eftir að tekið var fyrir alla beit búfjár. „Með samtengingu yrði fjölbreytt svæði í einu friðlandi, það er að segja birkiskógur, votlendi og vistkerfi í endurheimt, sem sé í samræmi við fyrstu grein nýju skógræktarlaganna. Ríkiseignir voru sammála þessari áherslu en Hulda segir að Skógræktin hafi sem notandi landsins komið í veg fyrir það. Stofnunin hafi áhuga á að rækta öðruvísi skóg í þessari brekku,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins frá því í nóvember.

Þörf á meiri skógi til kolefnisbindingar

Úr Skorradal.
Úr Skorradal. mbl.is/Sigurður Bogi

Þröstur segir að Skógræktin hafi spurt af þessu tilefni hvers vegna hafi þurft að friðlýsa brekkuna, það er Vatnshornsbrekkuna. „Það er alveg hægt að ganga og keyra þarna á milli og ekkert sem breytir því að hægt er að fara á milli þessara tveggja friðlýstu svæða hvort sem brekkan er friðlýst eða ekki,“ segir Þröstur.

„Við erum með áform um að gróðursetja þarna skóg og stefnum að því,“ segir hann. Þröstur segir að tafir hafi orðið á þeirri fyrirætlan af ýmsum ástæðum. „En núna sjáum við fram á að svo verði. Ekki síst vegna þarfar á meiri skógi til kolefnisbindingar. Þá koma upp þessar hugmyndir um friðlýsingu og ef hún [þ.e. Vatnshornsbrekkan] er friðlýst verður ekkert gróðursett því friðlýsing hefur það í för með sér,“ segir Þröstur.

Hann segir að brekkan sé rýrt land og rofið að talsverðu leyti. Eftir friðun frá beit hafi hún aðeins braggast en gróður sé þar enn rýr. Það sem hefur braggast sé helst mosi og talsvert sé af honum í brekkunni.

Vatnshornsskógar í Skorradal
Vatnshornsskógar í Skorradal

Að sögn Þrastar er sjálfssáning frá Vatnshornsskógi inn eftir brekkunni og Skógræktin mundi að sjálfsögðu virða hana.

„Við myndum ekki gróðursetja barrtré alveg að birkiskóginum. Það yrði svæði sem Vatnshornsskógur fengi að sá sér út í. Sú sjálfssáning er alls ekki mikil og frekar gisin. Það er mjög lítið af nýjum ungplöntum. Það birki sem er þarna hefur vaxið upp af leifum sem voru búnar að koma sér fyrir í jarðveginum áður en þetta var friðað fyrir beit. Svo þegar það var friðað fyrir beit fékk það að vaxa upp,“ segir Þröstur sem þekkir svæðið vel. 

Spurður út í hvers vegna Skógræktin vilji gróðursetja barrtré en ekki birki í brekkunni segir hann ástæðuna meðal annars vera þá að barrskógur liggi á aðra hlið brekkunnar en birki hinum megin. Hugmyndin sé að láta þessar tvær tegundir mætast í brekkunni.

Þröstur segir að ekki sé bara verið að tala um að gróðursetja barrtré á þessu svæði heldur fleiri stór- og fljótvaxin tré út af markmiðum stjórnvalda um kolefnisbindingu. Það er þrefaldur og allt upp í tífaldur munur eftir trjátegundum hversu mikil kolefnisbindingin er, svo sem vegna vegna vaxtarhraða og endanlegrar stærðar.

„Með birki er að nást binding upp á 1-2 tonn af koltvísýringi á hektara á ári á meðan með stafafuru er hægt að ná 10 tonnum og 20 tonnum með Alaskaösp. Þetta er ástæðan. Praktísk ástæða sem orðin brýnni núna en áður vegna loftlagsbreytinga.“ 

Hvað á að ráða?

Lerki er sumargrænt barrtré sem vex einkum á norðurhveli jarðar …
Lerki er sumargrænt barrtré sem vex einkum á norðurhveli jarðar eða til fjalla á suðlægari slóðum. mbl.is/Jón Svavarsson

Þröstur segir að það sé markmið ríkisstjórnarinnar að friðlýsa land á sama tíma og það sé markmið hennar að rækta skóg og binda kolefni. Hvað á að ráða? spyr Þröstur.

„Einu rökin fyrir því að friðlýsa þessa brekku voru þau að það væri svo flott að tengja svæðin – að vera með eitt friðlýst svæði,“ segir Þröstur og að með því yrði til landslagsheild. Friðlýsing breytir engu þar um segir Þröstur. Hvað er landslagsheild og hvað er sameiginlegt með birkiskóginum og votlendi Fitjaár? Það er náttúrulega tvennt ólíkt segir Þröstur.

„Þetta er mósaíklandslag, það er votlendi í botninum, skóglaus brekkan, birkiskógur og ræktaði skógurinn, sama hvað er gert þarna,“ segir hann og vísar þar til þess að friðlýsing muni ekki breyta því mósaíklandslagi. Hann bendir á að fyrir ofan Vatnshornsjörðina er skóglaust land líkt og víðar í Skorradal.

„Ástæðan fyrir því að við vildum ekki friðlýsa var sú að okkur fundust rökin fyrir friðlýsingu annars vegar ekki sterk, það er engin rök, og hins vegar að við erum með áform um að rækta þarna skóg. Friðlýsing á landinu myndi trufla þau áform og okkar rök eru loftlagsverndarrök fyrst og fremst,“ segir hann. 

Lúpína kæfir lággróður

Þorvaldur Örn Árnason, formaður Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd (Sjá), segir að með því að friðlýsa allt svæðið, það er að bæta Vatnshornsbrekkunni við, verði sérstaða þess tryggð, bæði votlendi og brekkunnar þar sem lágvaxið kjarr er að finna, svo sem birki og víði.

Jafnframt sé þetta gott berjaland en með því að planta þarna barrtrjám og leyfa lúpínu að vaxa frjálst muni frábært berjaland spillast eins og víða í nágrenni jarðarinnar segir Þorvaldur í samtali við mbl.is. Reynslan sýni að þrátt fyrir að hávaxnari tré nái að vaxa upp úr lúpínunni þá eigi það ekki við um lágvaxnari gróður sem kafni undir lúpínubreiðunni.

Ljósmynd/Hreinn Óskarsson

„Þetta er lítt snortið og um leið fjölbreytt land; vatn, á, votlendi og fjallshlíð með náttúrulegum gróðri. Til dæmis hefur birkið náð sér vel á strik þarna eftir að girt var fyrir sauðfjárbeit fyrir um það bil tveimur áratugum,“ segir Þorvaldur. Spurður út í ummæli Þrastar um að sjálfsprottna birkið sé ekki nýtt heldur gamalt segist Þorvaldur ekki hafa lagst í aldursgreiningu á birkinu sem er sjálfsáð en miðað við stærð og þroska þess þá er það fremur nýtt.

Sjá eru meðal þeirra sem lögðu fram athugasemd við friðlýsinguna og benda á að í aðalskipulagi Skorradalshrepps er allt land Vatnshornsjarðarinnar skilgreint sem náttúruverndarsvæði og mörkuð sú stefna að vinna að stækkun friðlands birkiskógavistkerfis er taki til allrar jarðarinnar Vatnshorns fyrir utan einkalóðir vestast í landinu.

Fyrr á þessu ári staðfesti ráðherra ákvörðun hreppsins um að gera svæði í fram-Skorradal að verndarsvæði í byggð og eru þjóðleiðirnar Síldarmannagöngur og Krosshólagata, hluti þess eins og hér kom fram að framan.

Sjá tekur undir stefnu Skorradalshrepps um að friðlýsa alla jörðina bæði vegna náttúru- og menningarminja.

„Við leggjum til að hlíðin austan við friðland Vatnshornsskógar út að mörkum Bakkakots verði einnig friðuð og tengi þannig fyrirhugað votlendisfriðland því friðlandi sem fyrir er í Vatnshornsskógi. Slíkt samfellt friðland myndi hafa meira gildi en ef þessi tvö friðlönd verða ótengd og þrengt verði að þeim með áberandi og ágengum tegundum eins og barrtrjám og lúpínu,“ segir í athugasemd Sjá. 

Hvönn yfirtaki lúpínuna

Skorradalur - Vesturland - Borgarfjörður
Skorradalur - Vesturland - Borgarfjörður mbl.is/Sigurður Bogi

Skógræktin byrjaði að dreifa Alaskalúpínu í fram-Skorradal fyrir um hálfri öld að sögn Þorvaldar og hún vaxi nú nánast umhverfis allt vatn og sé byrjuð að sækja í friðaðan birkiskóginn.

Þröstur segir það rétt að lúpína sé á svæðinu og að ekki sé unnið að því að hefta útbreiðslu hennar af þeirri einföldu ástæðu að hún sé lítið að breiðast út.

„Lúpínan er í vatnsbökkum Fitjár og hún hefur ekki breiðst inn í Fitjaárinnar sjálfar, það er staðarengin sem er einkum verið að friða,“ segir skógræktarstjóri.

Skorradalur - Vesturland - Borgarfjörður
Skorradalur - Vesturland - Borgarfjörður mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að komið sé mikið af hvönn komin inn á svæði þar sem lúpínan er og að hvönnin  muni taka yfir lúpínuna.

„Þar sem hvönnin er innlend jurt hefur enginn neitt á móti henni. Lúpínan er með strönd Skorradalsvatns. Þetta er malarströnd og lúpínan á tiltölulega auðvelt með að koma sér fyrir þar. Hún hefur breiðst út meðfram Fitjaá en hún hefur lítið sem ekkert breiðst upp í brekkuna því lúpína breiðist hægt upp í móti,“ segir Þröstur.

Að hans sögn er lúpínan einnig neðst í Vatnshornsskógi, meðfram veginum sem liggur meðfram strönd vatnsins. „Lúpínan er í fjörunni en ekki uppi í skóginum þar sem hún þolir ekki skugga. Strax og skógar eru sæmilega þéttir þá hverfur lúpínan úr landi auk þess sem hún hjálpar trjánum að vaxa með áburðagjöf sinni. Við lítum ekki á lúpínu almennt sem það vandamál sem sumir telja hana vera,“ segir Þröstur.

„Við lítum ekki á  hana sem vandamál í Skorradal og sjáum ekki að hún rýri gildi svæðanna til friðlýsingar. Þetta er bara planta og ef hún rýrir gildi svæðanna þá er það eitthvað sem er í kollinum á fólki af því að það er á móti útlenskum plöntum,“ segir Þröstur. 

Hluti af fyrirhuguðu friðlýsingarsvæði er í landi Vatnshorns og Skógræktin styður það enda sé það náttúrfarslega áhugavert svæði segir Þröstur. „Það er svæði sem er þess virði að friðlýsa en skóglausa brekkan – það er ekkert sérstakt við hana. Ekkert sem er friðlýsingarvert.

Við stefnum að því að klæða hana skógi samkvæmt góðu skógræktarskipulagi. Það hefur ekki í för með sér þétta gróðursetningu á einhverri einni tegund, barrtré, í allar brekkuna. Það verður bland af tegundum og verður skipulagt í heild. Það verður skilið eftir verulegt svæði af brekkunni nálægt birkiskóginum sem hann fær að breiðast út í. Við höfum ekki gert áætlun enn þá en hún verður að sjálfsögðu kynnt þegar þar að kemur. Með slíkum áætlunum erum við alltaf að ná fram einhverjum markmiðum. Svo sem kolefnis-, framleiðslu-, náttúruverndar- og fornleifamarkmiðum,“ segir Þröstur.

Þekktar gönguleiðir á svæðinu

Um Vatnshorn liggja eins og áður sagði gönguleiðin Síldarmannagötur og segir Þröstur engar áætlanir um að eyðileggja stíginn heldur frekar að halda honum við og merka hann sem ekki er í dag. 

Svæðið sem var skráð sem verndarsvæði í febrúar eru heima­tún bæj­anna Háa­fells, Fitja, Sarps, Efsta­bæj­ar, Bakka­kots og Vatns­horns. Einnig nær vernd­in til gömlu þjóðleiðanna sem liggja um lönd fyrr­greindra bæja. Um er að ræða forn­ar þing­leiðir, bisk­upa- og presta­leiðir m.a. tengd­ar Fitja­kirkju og Þing­völl­um, gaml­ar ver­leiðir milli lands­hluta og leiðir til aðdrátta sem lengst af lágu til Hval­fjarðar.

mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Þorvaldur segir mikilvægt að tryggja áfram að gönguleiðirnar verði óraskaðar og það sé ekki óskastaða að þær endi inni í barrskógi eða í gegnum lúpínubreiður.

Síldarmannagötur eru gömul þjóðleið úr Skorradal yfir Botnsheiði í Botnsdal í Hvalfirði. Varða fyrir ofan heimatúnið í Vatnshorni markar upphaf leiðarinnar frá Skorradal. Leiðin er talin draga nafn sitt af því að hún var farin í tengslum við síldarveiðar í Hvalfirði og kemur fram í Harðarsögu og Hólmverja. Leiðin tengist Skorradalsmegin áfram yfir dalinn frá Vatnshorni að Fitjum og áður fyrr hefur verið notað til þess Ferðamannavað svokallað sem liggur yfir Fitjá.

Vörður við Síldarmannagötu voru endurhlaðnar um aldamótin og er leiðin í dag vinsæl gönguleið. Leiðin liggur yfir Botnsheiði um holt og yfir mýrar um 12 km frá Vatnshorni í Hvalfjörð. Á leiðinni má m.a. sjá Tvívörður uppi á Botnheiði sem eru gamlar landamerkjavörður, stór og mikil mannvirki með mikið varðveislu- og kynningargildi, segir í verndaráætlun sem unnin var fyrir Skorradalshrepp.

Krosshólagötur eru forn samgönguleið sem lá frá Fitjum í Skorradal yfir að Snartarstöðum í Lundarreykjadal og áfram að Lundi. Leiðin liggur meðfram Skorradalsvatni að Háafelli þar sem leiðin heldur áfram upp eftir malarhryggnum. Nærri leiðinni upp á hrygginn aðeins neðar í hlíðinni eru mannvistarleifar um mögulega selabyggð, sem hafa mikið rannsóknargildi. Síldarmannagötur og Krosshólagötur eru báðar hluti af leið frá Bæ að Skálholti sem kölluð hefur verið íslenska pílagrímaleiðin eða Jakobsvegur Íslands að því er segir í tillögu sem Alta vann og er unnin út frá leiðbeiningum Minjastofnunar Íslands um verndarsvæði í byggð. 

Alta er ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagi og byggðaþróun, greiningu lands og búsetu, stefnumótun og verkefnisstjórnun.

Umhverfisstofnun mun senda ráðherra greinargerð varðandi friðlýsinguna á næstunni.
Umhverfisstofnun mun senda ráðherra greinargerð varðandi friðlýsinguna á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrvinnsla athugasemda stendur nú yfir hjá Umhverfisstofnun en unnið er úr þeim öllum í samvinnu við samstarfshóp sem skipaður var vegna undirbúnings friðlýsingarinnar. Niðurstöður úrvinnslunnar verða birtar í greinargerð sem birt verður opinberlega á heimasíðu Umhverfisstofnunar og send ráðherra ásamt öðrum gögnum í tengslum við friðlýsinguna.

Ekki liggur fyrir ákveðin tímasetning um hvenær áætlað er að vísa tillögu að friðlýsingu málsins til ráðherra en það verður gert þegar unnið hefur verið úr öllum athugasemdum í samvinnu við samstarfshóp um undirbúning friðlýsingarinnar. Ætla má að það verði fljótlega eftir að sumarfríi lýkur segir Hildur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina