Blaðamenn verða ekki lengur á staðnum

Það verður breytt snið á upplýsingafundi almannavarna í fyrramálið.
Það verður breytt snið á upplýsingafundi almannavarna í fyrramálið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blaðamenn munu frá og með morgundeginum vera viðstaddir upplýsingafundi almannavarna í gegnum fjarfundabúnað. Með þessari ákvörðun vill almannavarnateymið ganga á undan með góðu fordæmi, að vera ekki að kalla saman hópa nú þegar þriðja bylgja rís hvað hæst. 

Hingað til hafa að jafnaði þrír til fjórir blaðamenn frá helstu miðlum mætt á upplýsingafundina í salarkynnum Landlæknisembættisins á Höfðatorgi og áður mættu þeir í almannavarnagáminn í Skógarhlíð.

Sú tíð er liðin í bili, segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna. „Þetta sendir skýr skilaboð um það sem við erum að segja og við erum nú að fara sjálf eftir okkar eigin tilmælum. Við viljum ekki vera að stefna fólki saman,“ segir hann.

Vont ef smit bærist inn í hópinn

Fundirnir eru yfirleitt rúmur hálftími og þar koma sex til tíu einstaklingar saman frá mismunandi stöðum. Þetta getur verið langur tími þar sem fólk er saman og af þessum sökum segir Jóhann að almannavarnir hafi farið að líta til þess að gera þetta umhverfi öruggara.

„Það væri enda rosalega vont ef smit bærist inn í þennan hóp,“ segir Jóhann. Auk blaðamanna hafa tæknimenn og túlkar verið viðstaddir fundina og einnig á að verða breyting þar á núna. Myndavélunum verður stýrt úr öðru herbergi ásamt því sem túlkur mun einnig standa annars staðar.

Síðasti fundurinn í gámnum 25. maí.
Síðasti fundurinn í gámnum 25. maí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnir og landlæknir hafa aðsetur ofar í byggingunni þar sem fundir fara fram. „Við getum ekki tekið á móti fólki hingað núna vegna þeirrar starfsemi sem er hér en við viljum að sjálfsögðu áfram koma upplýsingum út. Það er mikilvægt að fjölmiðlar fái tækifæri til að spyrja spurninga og þetta er vettvangur sem við teljum okkur geta nýtt til að halda upplýsingagjöfinni áfram,“ segir Jóhann.

Blaðamenn á stórum skjá

Blaðamenn verða í mynd og hljóði á stórum skjá fyrir framan þríeykið og Víðir stýrir fundinum, að vanda. Spurning er hvort mynd verði sett á skjáinn af blaðamönnum, sem hingað til hefur ekki verið. Jóhann segir það til skoðunar.

Að lokum markar þetta allt saman nokkur tímamót, því að fundurinn í fyrramálið verður sá fyrsti þar sem Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, verður ekki í herberginu. En hann er þegar búinn að hlaða niður nauðsynlegum forritum og verður mættur á slaginu 11.03.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert