Bóluefnið Spútnik V til skoðunar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Verið er að athuga með notkun rússneska bóluefnisins Spútnik V í Evrópu, þar á meðal hér á landi, við kórónuveirunni í gegnum Evrópusambandið.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra spurð hvort Ísland muni halda sig við samkomulagið við ESB um að útvega bóluefni og hvort notkun Spútnik V komi til greina hér á landi.

Átta bóluefnaframleiðendur í sigtinu

„Það er mín sannfæring að það var rétt ákvörðun að vera samferða Evrópu í þessum málum. Á þeim vettvangi er verið að skoða þetta rússneska efni. Við erum þar um borð og við sjáum hvernig vindur fram með það,“ segir Svandís, sem veit ekki hvenær Spútnik V gæti mögulega komið til landsins. Bóluefnið sé til skoðunar hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. 

Svandís bendir á að Ísland sé með átta bóluefnaframleiðendur í sigtinu. Bóluefni frá sumum séu komin hingað til lands en málin séu komin styttra á veg hjá öðrum. „Við pössum okkur á að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni hér eftir sem hingað til.“

Spurð hvort annað erlent ríki hafi boðið Íslandi aðstoð um milligöngu að bóluefni svarar hún því neitandi.

Heilbrigðisstarfsmaður heldur á Spútnik V-bóluefni.
Heilbrigðisstarfsmaður heldur á Spútnik V-bóluefni. AFP

Fréttatímar og þættir byggðir á sögusögnum

Varðstu fyrir vonbrigðum þegar ljóst var að ekkert yrði af hjarðónæmisrannsókn Pfizer hér á landi?

„Þetta var spennandi hugmynd en við höldum okkar striki og höldum dampi. Við þurfum að sýna yfirvegun, ég held að það sé aðalmálið, bæði í þessum aðgerðum innanlands og líka í bólusetningum,“ segir Svandís og talar um að það hafi reynst okkur vel hingað til. Græni liturinn í samræmdum litakóðum vegna veirunnar sýni að við séum að gera rétt.

Spurð hvort hún hafi verið vongóð áður en niðurstaðan úr fundinum með Pfizer kom í ljós segir hún að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi upplýst hana allan tímann um að brugðið gæti til beggja vona. Því hafi hún verið alveg á jörðinni og vitað að málið gæti farið á hvorn veginn sem væri. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist einnig í gær hafa vitað að brugðið gæti til beggja vona. 

Bólusetning hérlendis í janúar síðastliðnum.
Bólusetning hérlendis í janúar síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Voru væntingarnar í samfélaginu úr hófi?

„Það var orðin mikil spenna í umræðunni síðustu daga og stundum heilu fréttatímarnir og umræðuþættirnir sem byggðu á sögusögnum. Það er aldrei gott. Það er alltaf betra að byggja umræðu á staðreyndum,“ greinir hún frá.

Hún kveðst sammála Þórólfi um að forsendurnar séu ekki fyrir hendi varðandi sams konar rannsókn hjá öðrum bóluefnaframleiðanda. „Við höldum okkar plani, sem hefur gengið mjög vel. Við erum komin lengst í bólusetningu á Norðurlöndunum og stöndum einstaklega vel með sóttvarnir. Það er ekkert samfélag eins opið í Evrópu og Ísland er núna,“ segir ráðherrann.

Þarf að bíða í tvær vikur

Svandís vill ekki nefna neina dagsetningu varðandi hvenær hægt verður að ljúka bólusetningu hérlendis við veirunni. Bóluefni muni berast hingað jafnt og þétt og allar líkur séu á því að þau muni berast hraðar á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta. Afhendingaráætlun gildi þangað til í lok mars. „Svo er bara að halda bjartsýninni og passa upp á úthaldið, það hefur komið okkur hingað.“

Spurð hvort komi til greina að aflétta hömlum enn frekar á Íslandi vegna fárra smita segist hún fyrst vilja sjá hvernig breytingarnar sem voru gerðar síðastliðinn mánudag, þar sem vægar tilslakanir á sóttvarnareglum voru gerðar, munu ganga. Tvær vikur taki til að fá úr því skorið og eftir það komi hlutirnir í ljós.

Svandís heldur á bóluefni í desember síðastliðnum.
Svandís heldur á bóluefni í desember síðastliðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæpt ár frá SMS-i

Almennt séð kveðst Svandís vera bjartsýn um framhaldið hér á landi. „Ég tók við SMS-i 28. febrúar í fyrra um að fyrsta smitið væri komið til Íslands. Það er bráðum ár síðan og ég held að ekkert okkar hafi órað fyrir því að við værum enn þá í glímunni við faraldurinn á heimsvísu ári síðar. Heldur ekki að það væru komin bóluefni gegn veirunni, sem er sögulegt, og hefur aldrei tekið svona stuttan tíma. Það er stóra málið. Það vilja allir fá það strax og mikið af því,“ segir hún um bóluefnið og bætir við að Ísland sé í sérlega góðri stöðu með sterkt heilbrigðiskerfi og gott upplýsingaflæði. „Samfélagið er opnara heldur en nokkurs staðar í Evrópu, við eigum að njóta þess og passa upp á úthaldið,“ segir ráðherrann.

mbl.is