Taka fyrir mál vegna brunans á Bræðraborgarstíg

Þrír létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg í byrjun júní …
Þrír létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg í byrjun júní í fyrra. Í skýrslu HMS segir að megin­á­stæða þess að eldsvoðinn hafi verið jafn­skæður og raun­in var, hafi verið ástand húss­ins og lé­leg­ar bruna­varn­ir. Breytingar hafi verið gerðar á húsinu sem ekki voru í samræmi við samþykktar teikningar og þær litlu brunavarnir sem hafi verið gert ráð fyrir samkvæmt þeim reyndust ekki til staðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir kyrrsetningarmál sem fyrrverandi íbúar á Bræðraborgarstíg 1 og aðstandendur þeirra sem létust í brunanum 25. júní á síðasta ári höfðuðu gegn fyrrverandi eiganda eignarinnar. Var þess krafist að eign­ir fé­lags­ins HD verk verði kyrr­sett­ar til að tryggja kröfu þeirra um miska­bæt­ur. Þrír lét­ust í brun­an­um á Bræðra­borg­ar­stíg.

Áður hafði héraðsdómur ógilt ákvörðun sýslumanns sem synjaði um kyrrsetninguna. Lagði dómurinn jafnframt fyrir sýslumann að kyrrsetja eignir HD verk að Dalvegi 24 og 26, eða aðrar eignir. Síðar staðfesti Landsréttur ógildinguna.

Tekið er fram í úr­sk­urði Lands­rétt­ar að HD verk hafi þegar selt þrjár af eign­um sín­um. Með vís­an til þess, og viðvar­andi ta­prekst­urs und­an­far­in ár sem lesa megi úr árs­reikn­ingi fé­lags­ins, sé það mat rétt­ar­ins að án kyrr­setn­ing­ar dragi mjög úr lík­ind­um til að kröf­ur íbú­anna og aðstand­end­anna verði fulln­ustaðar.Þá hafi félagið ekki lagt fram nýjusta ársreikning fyrir árið 2020 eða gert betur grein fyrir fjárhagsstöðu sinni árið 2021.

Fram kemur í niðurstöðu Hæstaréttar við málskotsbeiðni HD verk að kröfur íbúanna og aðstandenda þeirra sem létust séu 79,6 milljónir.

Í málskotsbeiðninni vísar HD verk til þess að alkunna sé að frestur lögaðila til að skila inn ársreikningum sæti undanþágum og að sá frestur hafi ekki verið liðinn. Telur félagið að Landsréttur hefði átt að líta til gagna sem HD verk lagði fram, meðal annars yfirlýsingu endurskoðanda um fjárhagslega stöðu félagsins og verðmat á eignasafninu, en fram kemur að félagið hafi gert kaupsamninga um fleiri eignir en þær fjórar sem félagið átti.

Telur HD verk að niðurstaða Landsréttar „sé til þess fallin að breyta réttarstöðu varðandi kyrrsetningarmál“ og hafi kæruefnið þar með verulegt almennt gildi.  

Segir HD verk að niðurstaða Landsréttar um fjárhagslega stöðu sína sé röng og er horft fram hjá því að eiginfjárstaða félagsins hafi aukist. Er ársreikningur 2020 lagður fram með beiðninni. Þá er bent á að fjármunir sem komu vegna sölu eigna, sem Landsréttur vísar til í úrskurði sínum, hafi verið notaðir til að greiða niður veðskuldir.

Hæstiréttur samþykkir miðað við framsett gögn að taka málið fyrir og segir að dómur í því geti haft fordæmisgildi um mat á skilyrðum fyrir kyrrsetningu svo og framkvæmd kyrrsetningar þegar fleiri en einn gerðarbeiðandi standa sameiginlega að kyrrsetningarbeiðni.

Samkvæmt ársreikningi HD verk fyrir árið 2020 má sjá að tap félagsins í fyrra nam 84,5 milljónum, en árið áður hafði félagið tapað 30 milljónum. Eignir félagsins hækka hins vegar úr 1,3 milljörðum í 1,73 milljarða í fyrra. Er þar aðallega um að ræða 400 milljón króna hækkun í bókum félagsins á fasteignum. Á móti hækka skuldir félagsins aðeins um 30 milljónir, en í því er meðal annars hækkun á skuldum við lánastofnanir um rúmlega 40 milljónir.

mbl.is