Spítalinn ráði ekki við bylgjuna án frekari aðstoðar

Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.
Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Staðan í heilbrigðiskerfinu er að þyngjast og þá sér í lagi á Landspítala en einnig á heilsugæslu.

Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag en mönnunarvandi Landspítala orðinn útbreiddur og spítalinn kominn á neyðarstig vegna þess fjölda kórónuveirutilfella í samfélaginu síðustu daga.

120 starfsmenn spítalans eru nú í einangrun og 60 í sóttkví. Þar að auki eru 20 í viðbót frá vinnu í annars konar sóttkví að sögn landlæknis.

Hún tók fram, að spítalinn gæti séð fleiri smit meðal starfsmanna á næstu dögum. Spítalinn hafi lengi unnið á hættustigi en í gær var hann færður upp á neyðarstig.

„Það þýðir að spítalinn ræður ekki við þessa bylgju, sem kemur ofan á þennan langvarandi mönnunarvanda, án frekari aðstoðar.“

Veikindi flækjast við smit

Þá séu veikindi inniliggjandi fólks alvarlegt mál en hópsmit varð á hjartadeild fyrr í vikunni.

„Þegar veikt fólk á spítalanum greinist með veiruna þarf að sinna því í hlífðarbúnaði og síðan geta veikindi þeirra orðið flóknari.“

21 liggja nú á landspítala smitaðir af veirunni, þar af eru sex á gjörgæslu og fimm þeirra eru í öndunarvél. Fjórar innlagnir voru í gær og fjórar útskriftir.

„Ég bind vonir við að við förum að sjá færri tilfelli á gjörgæslu,“ sagði Alma. Gögn frá Bretlandi bendi til þess en ekki sé hægt að segja það enn með fullri vissu.

Þá sagði Alma að nóg sé til af öndunarvélum, 56 séu á spítalanum, en mönnun spítalans gæti seint annað 56 sjúklingum í öndunarvélum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert