Þrátt fyrir „brjálsaman og linnulausan áróður“

„Við vorum, hinum frambjóðendunum fremur, með mjög skýra og frambærilega …
„Við vorum, hinum frambjóðendunum fremur, með mjög skýra og frambærilega stefnu sem byggist á lifaðri reynslu verka- og láglaunafólks og því sem við höfum upplifað og séð innan þessarar hreyfingar.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður stéttarfélagsins Eflingar vonaðist eftir sterkari sigri en kveðst engu að síður stolt og þakklát. 

„Þetta er einfaldur meirihluti og miðað við allt sem á hefur gengið get ég ekki verið annað en stolt af því að fólk hafi viljað treysta okkur til að leiða áfram efnahagslega réttlætis- og kjarabaráttu þeirra, þrátt fyrir þennan brjálsama og linnulausa áróður sem á okkur hefur dunið.“

Sólveig segist sérstaklega þakklát fyrir eldmóð þeirra sem skipa baráttulistann með henni. „Við höfum sýnt það og sannað að við tökum slaginn við öll samningaborð með þann einbeitta vilja að ætla okkur að vinna.“

Sér enga ástæðu til að breyta um stjórnunarstíl

Sólveig hefur áður sinnt formennsku Eflingar en sagði þá af sér vegna vantrausts starfsfólks félagsins. 

Nú þegar hún hefur verið kjörin á ný kveðst hún ekki sjá ástæðu til að breyta stjórnarháttum sínum. 

„Formaður Eflingar á að hafa algjöra hollustu gagnvart félagsfólki. Ég hef verið vakin og sofin í baráttunni og mun bara halda því áfram. Með því hef ég náð mjög raunverulegum árangri. Þannig nei, ég sé enga ástæðu til að breyta um taktík.“ 

Sú aðferðarfræði sem hún hafi stuðst við hingað til sé árangursrík og hún hyggist halda henni áfram.

Skýrari og frambærilegri stefna en aðrir frambjóðendur

Aðspurð hver séu hennar næstu verkefni segist Sólveig hafa beint kröftum sínum að kosningabaráttunni og það hafi verið helsta verkefnið. Nú þegar sigurinn sé í höfn er komið að því að setjast niður og ákveða næstu skref. 

Stefnan fyrir næstu kjarasamningsviðræður er skýr að sögn Sólveigar. 

„Við lögðum fram stefnu okkar í kosningabaráttunni og vorum, hinum frambjóðendunum fremur, með mjög skýra og frambærilega stefnu sem byggist á lifaðri reynslu verka- og láglaunafólks og því sem við höfum upplifað og séð innan þessarar hreyfingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert