Þrír á innherjalista fjárfestu í Íslandsbanka

Íslandsbanki
Íslandsbanki mbl.is/Hjörtur

Þrír aðilar sem tengdir eru stjórn eða yfirstjórn Íslandsbanka tóku þátt í lokuðu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem haldið var eftir lokun markaða á þriðjudag í þessari viku.

Bankasýsla ríkisins seldi í útboðinu 22,5% hlut í bankanum fyrir tæpa 53 milljarða króna.

Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar er fjárfesting þeirra þriggja þó aðeins brot af heildarupphæðinni, eða um 93 milljónir króna.

Af þessum þremur aðilum keypti Ari Daníelsson, stjórnarmaður í Íslandsbanka, stærsta einstaka hlutinn en hann keypti bréf fyrir tæpar 55 milljónir króna.

Fjárfestingafélagið RD Invest keypti hluti í bankanum fyrir um 27 milljónir króna. RD Invest er í eigu Ríkharðs Daðasonar fagfjárfestis, sem jafnframt er einn þekktasti knattspyrnumaður þjóðarinnar. Hann er í sambúð með Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka.

Þá keypti Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, hlut fyrir um 11,2 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert