Lesblinda hefur mikil áhrif á 1 af hverjum 10

Lesblinda hefur mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu eins …
Lesblinda hefur mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu eins af hverjum tíu nemenda í grunnskóla. mbl.is/Árni

Einn af hverjum 10 nemendum í efri bekkjum íslenskra grunnskóla segja að lesblinda hafi mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Þetta er niðurstaða viðamikillar könnun meðal ungmenna í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla.

Byggt er á spurningalista um nám og líðan og ýmislegt fleira, sem lagður var fyrir 10.895 nemendur á unglingastigi í grunnskólum landsins.

Þá sést einnig að hærra hlutfall nemenda sem á við lestrarörðugleika að stríða ver annað hvort engum tíma í heimanám eða ver lengri tíma en flestir aðrir nemendur.

Heildarniðurstöður könnunarinnar verða kynntar á fundi núna í hádeginu, en hægt verður að fylgjast með streymi af fundinum hér að neðan. Fundurinn fer fram á milli 12:00 og 12:20.

Meginniðurstaða könnunarinnar er að þessir lestrarörðugleikar valda lágu sjálfsmati, draga úr sjálfsöryggi sem leiðir til aukins kvíða meðal ungmennanna. Þessi kvíði dregur síðan úr áhuga á námi sem hefur í för með sér aukna hættu á óæskilegri hegðun.

Rannsóknarniðurstöðurnar sýna mjög sterk tengsl lestrarörðugleika og kvíða. Því meira sem lestrarörðugleikar hömluðu frammistöðu í námi, því meiri var kvíði ungmennanna. Strákar voru síður með kvíðatengd einkenni en stelpur og kynsegin nemendur. Eftir því sem börnin verða eldri, því meiri áhrif hafa lesblinda, lítill leshraði og skrifblinda á námsárangur.

Einstaklingar með leshömlun þróa oft með sér neikvætt sjálfsmat sem getur síðan haft ýmsar afleiðingar í för með sér, svo sem lítið sjálfsöryggi, vanda í félagslegum samskiptum, litla áhugahvöt, hegðunarvanda og andlega vanlíðan. Hugsanlega mætti draga úr þessu neikvæða sjálfsmati með því að grípa snemma inn í með aðstoð og útskýringum á hömluninni.

Á vefstefnunni koma fram:

  • Snævar Ívarsson framkvæmdastjóri Félags lesblindra á Íslandi;
  • Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands;
  • Ásdís Aðalbjörg Arnalds verkefnastjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands;
  • Þórhildur Halldórsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík;
  • Guðmundur Johnsen, formaður Félags lesblindra á Íslandi.
  • Kynnir er Davíð Stefánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka