Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter, mun halda áfram að vinna fyrir samfélagsmiðilinn og berjast fyrir það sem hann trúir á – eða að minnsta kosti þar til einhver sparkar honum burt.
Þetta kemur fram í tísti hans í kvöld en þar segir hann jafnframt að hann trúi því að tíminn núna sé einn sá mikilvægasti í sögu forritsins og að stjórnendur beri skyldu gagnvart notendum samfélagsmiðilins og starfsmönnum hans.
People keep asking me so here's an answer:
— Halli (@iamharaldur) May 2, 2022
I believe this is the most important time in Twitter's history to date. We have a duty to our hundreds of millions of users and thousands of employees.
I'm staying at Twitter and fighting for what I believe until someone kicks me out.
Eins og frægt er orðið samþykkti stjórn Twitter yfirtökutilboð auðkýfingsins Elons Musk í síðasta mánuði sem hljóðar upp upp á 44 milljarða bandaríkjadala.
Musk hefur lýst háleitum markmiðum um framtíð miðilsins, þar sem málfrelsi verði haft í fyrirrúmi, en hann hefur áður gagnrýnt að miðillinn takmarki tjáningarfrelsi fólks.
Þykir mörgum þetta varhugaverð þróun og eru margir áhyggjufullir yfir afskiptum Musks af fyrirtækinu, þar á meðal Haraldur.
Haraldur stofnaði hönnunarfyrirtækið Ueno árið 2014 og seldi það svo árið 2021 til Twitter þar sem hann er í dag stjórnandi.
Frá því að ljóst varð að Musk væri orðinn stærsti hluthafi í Twitter hefur Haraldur ekki farið leynt með óánægju sína. Þrátt fyrir að verðmæti miðilsins hafi hækkað verulega við yfirtöku Musk, og þar með hlutur Haralds í Twitter, þá líkar honum ekki vel við hann.
Haraldur gagnrýndi nýlega Jack Dorsey, stofnanda og fyrrverandi forstjóra miðilsins, í tísti, sem hann eyddi fljótlega í kjölfarið, þar sem hann sagði: „Að byggja upp fyrirtæki snýst um að byggja upp hópa. Alvöru leiðtogi ver hóp sinn staðfastlega. Jafnvel eftir að hann hefur snúið sér að öðrum hlutum.“