Líklega kvikuhlaup sem orsakar skjálftana

Skjálftarnir mælast á 5 kílómetra dýpi undir Fagradalsfjalli.
Skjálftarnir mælast á 5 kílómetra dýpi undir Fagradalsfjalli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjögurra stiga jarðskjálfti varð meðan á samráðsfundi náttúruvársérfræðinga Veðurstofu Íslands stóð, klukkan 14 í dag. 

Hann fannst meðal annars í Reykjavík, en Sigríður Kristjánsdóttir náttúruvársérfræðingur veðurstofu Íslands, segir líklegt að hann hafi fundist á fleiri stöðum. 

Búum okkur undir vikulanga hrinu

Skjálftahrinan sem nú er farin af stað minnir um margt á skjálftahrinu sem varð í desember á síðasta ári, að sögn Sigríðar.

Sú hrina einkenndist af öflugum skjálftum og entist í um það bil viku og því ekki ósennilegt að það sama muni gilda um þessa hrinu. 

Um kvikuhlaup að ræða

Veðurstofa Íslands telur að um kvikuhlaup sé að ræða, en það þýðir að kvika sé að brjóta sér leið inn í jarðskorpuna. Skjálftinn mældist á 4 til 6 kílómetra dýpi og virðist halda sig þar. 

Fylgst verður grannt með því hvort skjálftinn færist ofar eða haldist áfram á þessu sama dýpi. 

„Núna er kvikan enn á fimm kílómetra dýpi. Ef hún leitar upp, þá gæti orðið eldgos, en það er ekki víst að hún muni gera það. Í desember gerði hún það til að mynda ekki,“ segir Sigríður.

Geta greint mögulegt landris á morgun

Skjálftahrinan á Svartsengi tilheyrir öðru eldfjallakerfi, en virknin virðist hafa stokkið á milli svæða.

Á morgun mun Veðurstofan fá aflögunargögn í hendurnar sem gefa betri mynd af því hvort landris sé að eiga sér stað eða ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert