„Kemur á óvart að hún skuli gera þetta svona“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afsögn Drífu Snædal sem forseta Alþýðusambands Íslands í dag kom Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambands Íslands, bæði á óvart og ekki.

Hann segir niðurstöðuna eðlilega í ljósi þess að Drífa naut ekki trausts formanna tveggja stærstu aðildarfélaga Alþýðusambandsins en að afsögnina hafi jafnframt borið brátt að.  

„Stutta svarið er að það kemur kannski á óvart að hún skuli gera þetta svona. Ég hefði frekar átt von á því að hún hefði klárað fram að þingi og svo tekið ákvörðun um að bjóða sig ekki fram á þinginu eða tilkynnt það með einhverjum fyrirvara. Þetta kemur því bæði á óvart og ekki,“ segir Vilhjálmur, formaður SGS um afsögn Drífu.

Naut ekki trausts formanna VR og Eflingar

„Auðvitað er það þannig að þegar forseti Alþýðusambandsins nýtur ekki trausts formanna tveggja stærstu aðildarfélaga sambandsins, ásamt fleiri formanna, þá er þetta svo sem ekkert óeðlileg niðurstaða,“ bætir Vilhjálmur við en formenn VR og Eflingar tjáðu sig einnig um afsögn forseta ASÍ í dag.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sagði afsögn Drífu tímabæra og skaut fast á störf hennar. Sólveig metur það sem svo að Drífa hafi ekki hlustað á vilja þeirra sem hún sótti umboð sitt til.

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, tók í sama streng og kallaði afsögn Drífu „hluta af blokk sem er við það að falla“. Tel­ur hann Drífu ekki hafa rækt skyld­ur sín­ar gagn­vart aðild­ar­fé­lög­um og seg­ir VR hafa hugað að því að segja sig úr sam­band­inu.

Spurður svarar Vilhjálmur því neitandi að afsögn Drífu sé bakslag fyrir verkalýðshreyfinguna. Hann hefur jafnframt engan hug á því að bjóða sig fram til forseta Alþýðusambandsins. „Það er enginn ómissandi í neinu starfi og það kemur bara maður í manns stað.“

„Aldrei verið svigrúm til launahækkana“

Spurður um nýútgefna skýrslu sem hagfræðingarnir Katrín Ólafsdóttir og Arnór Sighvatsson unnu fyr­ir Þjóðhags­ráð, um stöðu og horf­ur á vinnu­markaði í aðdrag­anda kjara­samn­inga, kallar Vilhjálmur hana alveg „dýrlega“.

Í skýrslunni segir að takmarkað svigrúm sé til nafnlaunahækkana í núverandi verðbólguástandi. Vilhjálmur bendir á að það hafi aldrei verið svigrúm til launahækkana og sé það fullkomlega óháð efnahagsumhverfinu hverju sinni.

„Þetta er því ekkert nýtt. Það er ekki svigrúm þegar það er kreppa. Það er ekki svigrúm þegar allt er í bullandi uppsveiflu. Það hefðu í rauninni verið alveg stórmerkileg tíðindi ef að þetta ágæta fólk hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri svigrúm til launahækkana,“ segir Vilhjálmur um niðurstöður skýrslunnar.

„Álverin skiluðu 50 milljörðum í hagnað í fyrra sem er met. Það er metafkoma í sjávarútvegi. Samherji skilaði 17 milljörðum, Brim skilaði rúmum 11 milljörðum, Síldarvinnslan það sama. Horfurnar eru bjartar hjá ferðaþjónustunni. Núna þegar það hentar ekki að benda á það að staða útflutningsgreinanna er gríðarlega sterk um þessar mundir, þá sleppa menn því bara inni í þessari skýrslu, og segja að það sé ekkert svigrúm,“ bætir Vilhjálmur enn fremur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert