Gulur fluglitakóði yfir Eldey

Fluglitakóðinn hefur verið uppfærður.
Fluglitakóðinn hefur verið uppfærður. Kort/Veðurstofa Íslands

Fluglitakóði yfir Eldey á Reykjanesskaga hefur verið færður í gulan. Yfir 480 jarðskjálftar hafa mælst við Eldey frá miðnætti, en skjálftahrina hófst þar skömmu fyrir miðnætti í gær.

Veðurstofa Íslands greinir frá því að klukkan 15 hafi verið búið að að fara yfir 38 af þessum rúmlega 480 skjálftum en sá stærsti var 4,5 að stærð og reið yfir klukkan 05.06 í morgun. 

Um tíu skjálftar yfir 3,0 að stærð og sex yfir 4,0 að stærð hafa mælst við Eldey.

„Skjálftahrinur á þessu svæði verða reglulega en virknin núna er óvenju mikil. Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að færa fluglitakóða fyrir Eldey á gulan,“ segir á vef Veðurstofunnar

„En svo veit maður aldrei með jörðina“

„Við erum bara að bíða hér eins og allir aðrir,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Vegna óvissunnar sé búið að setja gulan fluglitakóða á yfir Eldey. Bjarki segir að ef gos væri yfirvofandi myndi fluglitakóðinn vera appelsínugulur, en svo sé ekki. Þó sé virknin umfram það sem venjulegt þykir og hafi því þótt rétt í ljósi aðstæðna að setja gulan kóða.

Hann bætir við að skjálftavirknin sé búin að róast töluvert á báðum svæðum, við Eldey og Fagradalsfjall. 

„Það eru meiri líkur á að eitthvað gerist en ekki en svo veit maður aldrei með jörðina,“ segir Bjarki að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka