Flak vélarinnar í frumrannsókn

map.is
map.is map.is

Rannsókn á tildrögum þess að flugvélin TF-KLO brotlenti ofan Skriðdals er á frumrannsóknarstigi. Þetta staðfestir Þorkell Ágústsson sem fer fyrir rannsókninni hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) í samtali við mbl.is

„Við erum á frumrannsóknarstigi að sanka að okkur öllum þeim mögulegum gögnum sem við getum.“

Þegar hefur farið fram rannsókn á vettvangi þar sem allt hefur verið myndað sem varpað getur frekari ljósi í málið. Að því loknu var flugvélabrakið flutt í skemmu Rannsóknarnefndarinnar til nánari skoðunar.

Á frumrannsóknarstigi er farið í ítarlegri viðtöl og kemur frekar í ljós í hvaða átt rannsóknin beinist.

Rannsókn getur tekið allt að þremur árum

Samkvæmt heimasíðu RNSA kemur fram að rannsókn geti tekið allt frá einu ári upp í þrjú þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Þegar Þorkell er spurður um þennan tímaramma, svarar hann:

„Það eru margir sem geta komið að svona rannsókn, svo sem framleiðendur á loftfari og hreyfli. Í tilfelli eins og þessu þá förum við með hreyfilinn út og þurfum að finna tíma til að framkvæma þá rannsókn.“

Hann segir þó ekki algilt að rannsókn taki svo langan tíma. Stundum sé hægt að greina frá fyrstu niðurstöðum í bráðabirgðaskýrslu, líkt og gert var við slysið á Þingvallavatni í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert