Minntust þeirra sem létust í flugslysinu

Frá minningarathöfn í Egilsstaðakirkju í kvöld.
Frá minningarathöfn í Egilsstaðakirkju í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson/Austurfrétt

Húsfyllir var í Egilsstaðakirkju í kvöld þegar minningarstund var haldin um þau sem létust í flugslysinu þegar TF-KLO brotlenti í Sauðahlíðum á sunnudag.

Húsfyllir var í Egilsstaðakirkju.
Húsfyllir var í Egilsstaðakirkju. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson/Austurfrétt

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli og prófastur á Austurlandi, og sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir leiddu athöfnina. Í lok hennar gafst kirkjugestum færi á að kveikja á kertum til minningar um þau þrjú sem fórust og tóku nær allir viðstaddir þátt í því.
Sr. Sigríður Rún las upp kveðju frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands sem sagði íslensku þjóðina sýna samhug.

Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir við athöfnina í kvöld.
Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir við athöfnina í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson/Austurfrétt

Þungbært að missa vinnufélaga og vini

Stjórn og starfsfólk Náttúrustofu Austurlands minnist tveggja samstarfsmanna sinna sem létust í flugslysinu í Sauðahlíðum. Á Facebooksíðu Náttúrustofunnar eru fjölskyldu og ástvinum þeirra sem létust sendar innilegar samúðarkveðjur.
„Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum varð hörmulegt flugslys í Sauðahlíðum norðaustan við Hornbrynju á sunnudag. Um borð í vélinni voru tveir farþegar, Fríða Jóhannesdóttir spendýrafræðingur og Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur, starfsfólk Náttúrustofunnar. Þau létust bæði við slysið, auk flugmanns vélarinnar,“ segir í færslunni.
„Fríða og Skarphéðinn sinntu rannsóknum og vöktun á hreindýrastofninum hér á landi, og var flugið þáttur í því verkefni. Árlega eru farnar nokkrar flugferðir til þess að telja hreindýr úr lofti og hefur það verið hluti af verkefnum Náttúrustofunnar um árabil.
Orð geta ekki lýst því hversu þungbært það er að missa vinnufélaga og vini í svo hörmulegu slysi. Höggvið var stórt skarð í fámennan og þéttan starfsmannahóp. Verkefni næstu daga verða fyrst og fremst að halda utan um hvert annað, styðja og styrkja til að takast á við áfallið saman.
Hugur okkar er fyrst og fremst hjá fjölskyldu og ástvinum allra þeirra sem létust,“ segir þar ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert