Þyrla og tvær flugvélar aðstoðuðu við leitina

Þrír lét­ust er flug­vélin fórst, flugmaður og tveir farþegar.
Þrír lét­ust er flug­vélin fórst, flugmaður og tveir farþegar. mbl.is/Sigurður Bogi

Farþegaflugvél Icelandair, ferðaþjónustuþyrla og fisflugvél aðstoðuðu við að staðsetja flugvélina sem brotlenti á Austurlandi í gær. Þrír létust er flugvélin fórst, flugmaður og tveir farþegar.

Boð úr neyðarsendi flugvélarinnar bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 17.01 í gær og var um leið haft samband við flugstjórnarmiðstöðina sem staðfesti að vélin hefði verið á flugi yfir Austurlandi.

„Eftir því var óskað að haft yrði samband við vélina eftir öllum tiltækum leiðum sem ekki gekk upp. Þegar svo var orðið þótti líklegt að eitthvað gæti mögulega verið að og þá voru viðbragðsaðilar kallaðir út, björgunarsveitir á Austurlandi, lögregla og svo þyrla frá Landhelgisgæslunni,“ segir Guðmundur Birkir Agnarsson, aðgerðastjóri hjá Landhelgisgæslunni, í samtali við mbl.is.

Slysið varð við Sauðahlíðar, suður af Skriðdal og vestur af Öxi.

Komu auga á flugvélina

Neyðarsendir vélarinnar gaf staðsetningu til viðmiðunar þar sem slysstaður gæti mögulega verið. Á þeim slóðum sáu flugmenn vélar Icelandair eitthvað á jörðu niðri sem líktist flugvélarflaki.

„Það var síðan staðfest af ferðaþjónustuþyrlu og fisflugvél frá Egilsstöðum sem komu á vettvang og gátu staðfest að vélin væri þarna á jörðu niðri.“

Skömmu síðar lenti þyrla Landhelgisgæslunnar á slysstað og úrskurðaði læknir þyrlunnar alla um borð í flugvélinni látna á vettvangi. Þá komu björgunarsveitarmenn landveginn á torfæruhjólum.

Guðmundur segir að Landhelgisgæslan hafi aðstoðað lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa í gærkvöldi og nótt við að komast á vettvang með rannsakendur og að flytja hina látnu til Egilsstaða.

Ekki hafa fengist upplýsingar um tildrög slyssins að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert