Nýir sjúkdómar gætu borist vegna loftslagsbreytinga

Alma Möller Landlæknir.
Alma Möller Landlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alma Möller landlæknir segir í samtali við mbl.is að loftslagsbreytingar geti haft töluverð áhrif á heilsu Íslendinga og heilbrigðiskerfið þegar litið er fram í tímann. Embætti landlæknis átti fulltrúa í vísindanefnd sem vann að fjórðu mats­skýrslu um lofts­lags­breyt­ing­ar í morg­un.

Alma segir að í síðustu matsskýrslu hafi verið lítið fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á heilbrigðismál en að í nýjustu skýrslu sé lagt meiri áherslu á heilbrigðismál. Því fagnar hún en fram kemur meðal annars í skýrslunni að áhyggjur séu uppi um að nýir sjúkdómar geti numið land með loftslagsbreytingum. Eru það sjúkdómar eins og skógarmítla, lyme-sjúkdómurinn og Vestur-Nílar vírusinn.

Fólk á spítala vegna svifryks

Hún segir lykilatriði að undirbúa heilbrigðiskerfið og horfa langt fram í tímann. Nauðsynlegt sé að tryggja nægt starfsfólk.

„Við erum í raun ekki í stakk búin, að svo stöddu, til að mæta þessum breytingum. En það er mjög mikið verið að gera til að styrkja heilbrigðiskerfið og mjög mikið sem hægt er að gera,“ segir Alma.

Alma segir að Það sé lykilatriði að auka vöktun á lýðheilsuvísum með til dæmis auknum loftgæðamælingum til að tryggja heilsu fólks betur. Svifryksmengun geti stundum orðið mikil og segir hún dæmi vera um það að fólk komi á spítala með vandamál tengd svifryksmengun.

Segir aukinn jöfnuð tryggja bætta heilsu

Hún segir einnig þurfa að efla verkferla vegna hamfara, hvort sem það tengist veðri, skjálftum eða eldgosum.

„Hamfarir spila yfirleitt inn í heilsu og heilbrigðisþjónustu og því þarf að vera með viðbragðsáætlanir, auka áfallaþol og heilbrigðisviðbúnað.“

Alma segir að lokum að aðrar þjóðir séu að sjá að þeir sem höllustum fæti standa efnahagslega komi verst út þannig það að auka jöfnuð gæti skipt sköpum til að tryggja heilsu fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert