Liggur enn þungt haldinn eftir eldsvoða

Frá vettvangi brunans.
Frá vettvangi brunans. Ljósmynd/Aðsend

Karlmaður á fertugsaldri liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir eldsvoðann sem varð í Stangarhyl snemma í gærmorgun.

Þetta segir lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og bætir við að tæknideild muni skoða vettvanginn dag.

Mestur eldur í eldhúsinu

Upptök eldsins hafa hafa ekki fengist staðfest en eldurinn virtist vera mestur í rýminu þar sem eldhúsið var, að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta var mjög krefjandi verkefni. Það var mjög þéttur og mikill reykur þarna en afgreiðslan var tiltölulega snögg. Það er alltaf flókið og erfitt þegar við þurfum að vera í leit,” segir Jón Viðar og bætir við að sex manns hafi verið í húsnæðinu þar sem eldurinn kviknaði. Þar af voru þrír fluttir á bráðamóttöku. 

Vinna í gangi með aftara húsið

Jón Viðar segir tvö hús vera á svæðinu, fremra og aftara. Kviknað hafi í efri hæðinni á fremra húsinu. Hann segir að fólk virðist ekki hafa búið á neðri hæðinni.

Að sögn Jóns Viðar hefur slökkviliðið verið í vinnu með aftara húsið og búið er að tryggja tvær flóttaleiðir út úr öllum rýmum. Það er þriggja hæða og því stærra en fremra húsið þar sem eldurinn kviknaði. Segist hann hafa heyrt af því að um 50 manns búi í aftara húsinu. 

Slökkviliðið skoðaði húsið þar sem eldurinn kviknaði árin 2021 og 2022. Engin gisting var þar árið 2021 en skömmu fyrir aldamótin var óskað eftir því að breyta efri hæðinni í húsvarðaríbúð. Því var hafnað þar sem ekki voru tvær óháðar flóttaleiðir á hæðinni. Önnur beiðni um slíka íbúð barst síðan og var hún samþykkt árið 2002 með því skilyrði að svalir yrðu byggðar.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil ábyrgð 

Jón Viðar segir að eigandinn hafi átt að setja upp svalirnar og taka húsnæðið ekki í notkun fyrr en þær hafi verið komnar upp. Í kjölfarið átti hann að óska eftir lokaúttekt á breytingunum. Miðað við að svalirnar voru ekki komnar upp telur hann ólíklegt að óskað hafi verið eftir lokaúttektinni. Annars eigi slökkviliðið að fylgjast með stöðu mála í reglubundu eftirliti. Ekki sé þó hægt að fylgjast með byggingarhraða viðkomandi.

Jón Viðar segir að óháð því hvort menn séu að leigja íbúð sem er skilgreind sem íbúðarhúsnæði eða að leigja húsnæði þar sem einhver sefur í atvinnuhúsnæði sé númer eitt, tvö og þrjú að tryggja öryggi fólks. Ábyrgðarhlutverkið sé því mikið.

„Meginstefið okkar við að skoða atvinnuhúsnæði er að brunavörnum sé fullnægt. Fólk geti vaknað ef það kviknar í, eins að menn hafi tvær óháðar flóttaleiðir,” segir hann og bætir við að einnig sé þess krafist að brunahólfin séu ekki stór.

„Að öðru leyti erum við ekki að fara lengra í þeim málum, þó svo að þetta sé búseta í húsnæði sem heimilar ekki búsetu miðað við leyfisskilmála,” greinir Jón Viðar frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert