Landrisið enn hraðar en það var fyrir hamfarirnar

Fyrir utan Grindavík. Landrisið heldur enn áfram norður af bænum.
Fyrir utan Grindavík. Landrisið heldur enn áfram norður af bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áfram eru líkur á eldgosi eða öðru kvikuhlaupi, eins og því sem varð 10. nóvember og olli hamförum í Grindavík, á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir undir yfirborðinu við Svartsengi.

Þetta er tekið fram í nýrri tilkynningu Veðurstofunnar.

Segir þar að land haldi áfram að rísa við Svartsengi, þó hægst hafi á því frá því á föstudag.

Hraðinn á landrisinu er engu að síður meiri en mældist dagana fyrir 10. nóvember, þegar kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík myndaðist.

Eldgos líklegast norður af Grindavík

Ef til kvikuhlaups kemur þykir líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember.

Talið er líklegast að eldgos kæmi upp norður af Grindavík, í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhnúkagíga.

Skjálftavirkni er sögð hafa haldist nokkuð svipuð síðustu daga. Skjálftavirknin er áfram væg og er mest á svæðinu við Hagafell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert