„Liggur við að sumir trúi þessu ekki enn þá“

Jarðvísindamenn þurftu að berjast fyrir því að þeir yrðu teknir alvarlega þegar jörð tók að rísa og skjálftar fóru að mælast sumarið 1975 í Mývatnssveit. Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, var þá umsjónarmaður jarðskjálftamæla. 

Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hafði nýlega komið fyrir jarðskjálftamælum á svæðinu til að fylgjast með landinu. Á sama tíma stóð til að reisa virkjun í Kröflu. Þótti það nýlunda þá að almennir borgarar, aðallega bændur og prestar, sáu um jarðskjálftamæla víðsvegar á landsbyggðinni. 

Línuritin úr mælunum þurfti að sækja á staðinn og senda suður þar sem Páll og fleiri jarðvísindamenn tóku á móti þeim og lásu úr gögnunum. 

Gögnin sem komu úr mælunum sumarið 1975 gáfu til kynna að eitthvað óvanalegt væri á seyði. Jarðskjálftavirkni var á svæðinu og landris mældist, en þeir sem unnu við byggingu stöðvarhússins við Kröfluvirkjun tóku eftir því að landið væri að rísa. Óttuðust þeir að landrisið myndi veikja undirstöðurnar og höfðu því samband við jarðvísindamenn.

Páll Einarsson var nýútskrifaður jarðeðlisfræðingur þegar skjálfta varð vart í …
Páll Einarsson var nýútskrifaður jarðeðlisfræðingur þegar skjálfta varð vart í Mývatnssveit. Urðu þau undanfari 9 ára gostímabils við Kröflu. Fyrsta eldgosið í Kröflu hófst fyrir nákvæmlega 48 árum síðan í dag. Samsett mynd

Mývetningar fundu fyrir skjálftunum

Páll segir að menn hafi ekki viljað trúa því að skjálftavirknin væri óvanaleg í Mývatnssveit þó sérfræðingar segðu svo. Mývetningar voru margir hverjir sammála vísindamönnunum, svo mikil jarðskjálftavirkni hafði ekki gert vart við sig um nokkurt skeið. 

Segir hann að vísindamennirnir hafi þurft að hafa talsvert fyrir því að hlustað yrði á þá, en þarna var Páll nýútskrifaður úr jarðeðlisfræðingur. 

„Fyrsta verkefnið sem ég lenti í að ganga úr skugga um hvort þetta væri venjuleg hegðun Kröflu eða hvort þetta væri eitthvað nýtt. Það var ekki auðvelt, það var byrjað að bora inni í öskjunni og í Kröflu fyrir verðandi virkjun,“ segir Páll. 

Forsíða Morgunblaðsins 21. desember 1975.
Forsíða Morgunblaðsins 21. desember 1975. Skjáskot/Tímarit.is

Deilt um virkjunina

„Allt þetta var umdeilt, bæði tæknilega og pólitískt. Þannig ég kem inn í þetta umhverfi þar sem menn voru að rífast satt að segja, deila mjög um hvort þetta væri rétt aðferðafræði og hvernig ætti að standa að þessu. Þá kemur allt í einu þessi spurning, er að byrja einhver óeðlileg virkni í þessari eldstöð? Þar stóð ég í eldlínunni og það hafði enginn neina skyldu til að trúa því sem ég sagði. Og margir sem höfðu fulla ástæðu til að trúa mér ekki. Þetta var eldskírn unga jarðvísindamannsins á þeim tíma,“ segir Páll

Hvað varð til þess að menn fóru að trúa þér?

„Ja, það liggur við að sumir trúi þessu ekki enn þá,“ segir Páll glaðbeittur.

Fyrsta eldgos Kröflueldanna hófst með skömmum fyrirvara hinn 20. desember árið 1975. Stóð það stutt yfir, svo stutt að jarðvísindamenn sem komu að sunnan misstu af því. 

Fjallað er um Kröfluelda og líkindin milli umbrotanna á Reykjanesskaga í Dagmálum í dag. Þátturinn var tekinn upp á mánudag, 18. desember, en níu klukkustundum síðar tók Reykjanesskaginu við sér að nýju og eldgos hófst. Þáttinn má hlusta á í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert