Samþykktu skipun rannsóknarnefndar um snjóflóð í Súðavík

Myndin er tekin í Súðavík fyrir aldarfjórðungi.
Myndin er tekin í Súðavík fyrir aldarfjórðungi. mbl.is/RAX

Þings­álykt­un­ar­til­laga um rannsókn vegna snjóflóðsins sem féll í Súðavík í janúar 1995 var samþykkt á Alþingi í dag. Aðstandendur og ástvinir þeirra sem létust hafa farið fram á óháða rannsókn á tildrögum og aðstæðum síðan slysið varð. 

38 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni og greiddi enginn gegn henni. 26 voru fjarverandi þegar atkvæði voru greidd.

Engin rannsókn hafi farið fram á snjóflóðinu

Fyrir atkvæðagreiðslu vakti Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, athygli á því að þetta væri í fyrsta sinn síðan lög um rannsóknarnefndir voru sett árið 2011 að Alþingi íslendinga greiddi atkvæði um rannsóknanefnd sem fjallar ekki um eftirmála hrunsins.

Hún bætti við að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi vandað sig mjög við þessa vinnu og að nefndarmenn hafi lagt sig fram um að ná saman um tillöguna. Það hafi tekist eftir vandlega yfirlegu.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, tók einnig til máls. Hún greindi frá því að við skoðun málsins hafi ekkert komið fram sem gaf vísbendingu um að atburðir hafi þarna átt sér stað með saknæmum þætti.

Það væri þó mikilvægt að rannsóknarnefnd yrði skipuð vegna þess að rannsókn fór ekki fram þegar atburðirnir áttu sér stað. 

„Það er rétt að þessi sorglegi atburður fái loksins tilhlíðandi skoðun sem verður vonandi til þess að hægt verði að setja punkt við þennan harmþrungna viðburð í sögu samfélagsins alls,“ sagði Hildur. 

Þingsályktunartillagan lögð fram um miðjan apríl

Síðasta sum­ar sendi Katrín Jak­obs­dótt­ir, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd beiðni lög­manns, fyr­ir hönd eft­ir­lif­enda og aðstand­enda þeirra sem lét­ust í snjóflóðinu, þar sem farið var fram á að málið yrði rann­sakað af hálfu yf­ir­valda.

Í janúar var beiðni um skip­an rann­sókn­ar­nefnd­ar um aðdrag­anda og viðbragð yf­ir­valda vegna Súðavík­ursnjóflóðsins af­hent for­seta Alþing­is en þá hafði málið verið á borði stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar síðan um sumarið. 

Þingsályktunartillagan var síðan lögð fyrir Alþingi um miðjan apríl og kvaðst Þórunn þá vona að málið yrði afgreitt fyrir lok þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka