Gæti farið illa með virði ríkisbankanna

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit ekki hvernig þetta fer með virði ríkisbankanna að hafa gert þetta svona illa.“

Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is um nýlegt álit EFTA-dómstólsins sem birt var í gær.

Í álitinu kemur fram að skilmálar fyrir lán með breyttum vöxtum þurfi að vera skýrir og að orðalag skilmála í íslenskum bönkum sé ógagnsætt.

Álitið varðar m.a. 1.500 manna málsókn Neytendasamtakanna gegn Landsbankanum og Íslandsbanka.

Virðir Íslandsbanka þurft að þola nóg

Dóm­stól­inn setur þó þann fyr­ir­vara á að það sé ís­lenskra dóm­stóla að meta hvort niðurstaða EFTA sam­ræm­ist ís­lensk­um lög­um. Málið er tekið fyrir í Héraðsdómi, sem liggur nú yfir einstökum lánaskilmálum til að meta hvort þeir séu nægilega skýrir.

„Ég held að það sé líklegra en ekki að þeir verði fundnir óskýrir,“ segir Björn Leví um skilmálana.

Björn Leví býst við því að upp komi fleiri mál í tengslum við lánaskilmála, sérstaklega ef íslenskir dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að skilmálarnir hafi verið óskýrir. „Stærðin á því er mögulega eitthvað stjarnfræðilegt,“ bætir hann við.

Samkvæmt ársreikningum áætla bankarnir áætla að undirliggjandi hags­mun­ir í dómsmálunum nema um 30 millj­örðum króna, eins og lögmaður lántaka benti á í viðtali við mbl.is. 

„Ofan í þetta er Íslandsbanki hluti af þessu mengi. Nógu mikið hefur hann minnkað í virði eftir söluklúðrið síðast og rannsóknina sem er í gangi,“ bendir píratinn á að síðustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert