Lögðu hald á vopn og fíkniefni

Tveir aðilar voru handteknir vegna gruns um vopnalagabrot og vörslu …
Tveir aðilar voru handteknir vegna gruns um vopnalagabrot og vörslu fíkniefna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum á höfuðborgarsvæðinu í dag og tvær tilkynningar bárust um innbrot. Tveir voru handteknir vegna gruns um vopnalagabrot og vörslu fíkninefna og tilkynnt var um dansandi mann á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. 

Þetta er meðal þess sem lögreglan þurfti að fást við í dag samkvæmt dagbók lögreglu. Lögregla hefur fengist við um 90 mál frá því klukkan sjö í morgun mörg þeirra sökum hvassviðris dagsins.

Þrír stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum

Tveir voru handteknir vegna gruns um vopnalagabrot og vörslu fíkniefna. Við leit í bifreið lagði lögregla hald á bæði vopn og fíkniefni, en aðilarnir fengu lausn úr haldi lögreglu að skýrslutöku lokinni. 

Þá voru þrír stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum. Eftir að hafa blásið í öndunarmæli reyndist einn undir refsimörkum og honum gert að stöðva akstur. Annar reyndist vera sviptur ökuréttindum og var laus úr haldi lögreglu að sýnatöku lokinni.

Sá þriðji ók bifreið sinni eins og brjálæðingur samkvæmt bókun og hann færður á lögreglustöð þar sem dregið var úr honum blóð og látin laus að sýnatöku lokinni. 

Lögregla skoðaði dansandi mann

Tilkynnt var um yfirstandandi innbrot í bifreið. Eigandi bifreiðarinnar kom að manni hálfum inni í bifreið sinni og kallaði eftir aðstoð lögreglu. Eigandinn spornaði við því að innbrotsþjófurinn yfirgæfi vettvang á meðan beðið var eftir lögreglu. Lögregla mætti á vettvang og skrifaði skýrslu um málið. 

Þá var tilkynnt um innbrot þar sem að svalahurð hafði verið spennt upp og tölvubúnaði numið á brott. Lögregla fór á vettvang og skrifaði skýrslu. 

Tilkynnt var um dansandi mann á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og fór lögregla að skoða málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert