Blés þjóðinni eldmóð í brjóst

Æfingafatnaður hefur þróast umtalsvert síðustu áratugi. Finnbjörn, hægra megin, á …
Æfingafatnaður hefur þróast umtalsvert síðustu áratugi. Finnbjörn, hægra megin, á hlaupum um miðbik síðustu aldar. Ljósmynd/Aðsend

„Með framgöngu sinni á íþróttavellinum í árdaga íslenska lýðveldisins blésu hann og félagar hans þjóðinni eldmóð í brjóst og sannfærðu Íslendinga um að þeir væru verðug þjóð meðal þjóða.“

Með þessum orðum hóf Þráinn Hafsteinsson frjálsíþróttagarpur minningargrein sína fyrir hönd Íþróttafélags Reykjavíkur um Finnbjörn Þorvaldsson, einn mesta íþróttagarp gullaldar frjálsíþróttamanna, svo aftur sé vitnað í Þráin.

Finnbjörn lést í júlí 2018 en var fæddur 25. maí 1924 og hefði því átt hundrað ára afmælisdag í dag. Hann hóf keppnisferil sinn sem unglingur árið 1943 en 1946 bætti hann Íslandsmetin í 100 og 200 metra hlaupi í karlaflokki.

Fánaberi á Ólympíuleikunum

Var Finnbjörn einn tíu keppenda Íslands sem fóru mikla frægðarför á Evrópumótið í Ósló þetta sama ár, 1946, þar sem hann náði sjötta sæti í hundrað metra hlaupi en það hefur enginn Íslendingur leikið eftir á Evrópumeistaramóti síðan, eftir því sem Þráinn skrifar í minningarorðum sínum.

Finnbjörn keppti á Ólympíuleikunum í London árið 1948 og var þar fánaberi Íslands en hæst reis ferill hans árið eftir þegar hann varð Norðurlandameistari í 100 og 200 metra hlaupi og stigahæsti keppandi þess móts. Finnbjörn náði þá þeim einstaka árangri að setja tíu Íslandsmet í frjálsum íþróttum eitt og sama sumarið.

Finnbjörn var mjög iðinn við íþróttir alla sína æfi. Hér …
Finnbjörn var mjög iðinn við íþróttir alla sína æfi. Hér er hann í golfi níræður. Ljósmynd/Aðsend

Auk spretthlaupsins náði hann mjög góðum árangri í langstökki, var góður spjótkastari og átti Íslandsmet í fimmtarþraut auk þess að verða Íslandsmeistari í handknattleik með ÍR. Finnbjörn hætti keppni árið 1952 en stundaði íþróttir áfram langt fram eftir aldri og fylgdist vel með íþróttastarfi í landinu. Hann átti um árabil sæti í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands og var útnefndur heiðursfélagi ÍR árið 1995.

Stökk bara niður á völl

„Eftir árin í frjálsum reyndi Albert Guðmundsson lengi að fá pabba í fótboltann því hraðinn hlyti að hjálpa mikið,“ segir Gunnar Þór Finnbjörnsson, sonur Finnbjörns og um langt árabil þekktur borðtennisspilari, við mbl.is. Þá hafi þó önnur áhugamál verið farin að taka yfir hjá föður hans svo Albert heitinn hafði ekki erindi sem erfiði þar.

„Hann var fæddur í Hnífsdal fyrir vestan og bjó lengi á Ísafirði en fluttist suður átján-nítján ára gamall og byrjaði þá fljótlega í frjálsum hjá ÍR,“ segir Gunnar. „Það var skondið í Ósló að það fór fram hjá honum og þjálfurunum líka að hann hefði komist í úrslit þar svo hann var búinn að skipta um föt og sat uppi í stúku þegar tilkynnt var að hann ætti að fara að hlaupa úrslitahlaupið. Svo hann stökk bara niður á völl, brá sér í fötin og varð í sjötta sæti,“ segir Gunnar.

„Hann var ekki kominn yfir þrítugt þegar hann hætti að keppa enda þá kominn með fullt af börnum,“ heldur Gunnar áfram en föður hans og Theodóru Steffensen móður hans varð sjö barna auðið. „Pabbi var auk þess mikið prúðmenni og ég man að Örn Eiðsson [frjálsíþróttakappi og um árabil ritstjóri Garðapóstsins, fréttabréfs Garðbæinga] sagði engan íþróttamann hafa verið fljótari að óska keppinautum til hamingju þegar hann laut í lægra haldi.“

Finnbjörn starfaði um áratuga skeið hjá Loftleiðum, var þar skrifstofustjóri og fjármálastjóri, og tók drjúgan þátt í glæsilegum framgangi þessa fjöreggs Íslendinga á sínum tíma.

Hann lést 9. júlí 2018, á nítugasta og fimmta aldursári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert