Samstarfsörðugleikar ollu aflýsingu

Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar segir að samstarfsörðugleikar hafi ollið því að …
Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar segir að samstarfsörðugleikar hafi ollið því að falla þurfti frá einkasýningu Bryndísar. Ljósmynd/Duus Safnhús

Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar harmar að ekki verði af einkasýningu Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur í safninu en segir að samstarfsörðugleikar hafi ollið því að sýningunni hafi verið aflýst.

„Það er synd að svona fór en því miður gekk samstarfið mjög brösuglega frá upphafi og ekki var staðið við þá tímafresti sem settir voru er snúa að uppsetningu sýningarinnar,“ segir Helga Þórsdóttir safnstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. 

Lista­sýn­ing­in átti að opna klukk­an 14 í dag í Lista­safni Reykja­nes­bæj­ar en var af­lýst af safna­stjóra safns­ins.

Bryndís treysti sér ekki til að fylgja þeim ramma sem safnið setti fram

Bryndís Hrönn birti færslu á Facebook í gær þar sem hún sagði að svo virtist vera sem annarlegar hvatir væru að baki þess að fallið var frá sýningunni hennar. 

Helga segir hins vegar að nokkrum dögum fyrir fyrirhugaða opnun hafi komið í ljós að Bryndís treysti sér ekki til að fylgja þeim ramma sem safnið hafði sett fram er varða meðal annars útgjöld, vinnutíma starfsfólks og samvinnu um sýningarskrá.

Helga segir að safnið hafi þá sett fram úrslitakosti um lokaundirbúning sem ekki var fallist á.

Því miður gengu hlutirnir ekki upp“

„Listamaðurinn og verkin hans eru sannarlega mikilvægasti þátturinn í hverri sýningu en það koma þó margir aðrir að því að setja upp og undirbúa myndlistarsýningar. Tæknimenn, smiðir, aðstoðarfólk, listfræðingar, sýningarstjórar og fleira starfsfólk.

Í þessu tilfelli komu upp samstarfsörðugleikar sem leiddu til þessarar leiðu niðurstöðu að ekki verður af sýningunni í Listasafni Reykjanesbæjar,“ segir Helga. 

Hún segir að með þessu sé enginn dómur felldur um listamanninn né verk hans „en því miður gengu hlutirnir ekki upp í þessu tilfelli“.

Uppfært klukkan 11.39

Í fréttinni sagði áður að sýningunni hefði verið aflýst með samþykki sviðsstjóra menn­ing­ar­sviðs Reykja­nes­bæj­ar, þar sem Bryndís hafði fullyrt það í færslu sinni á Facebook. Upplýsingafulltrúi á vegum Reykjanesbæjar hafði samband við mbl.is og sagði að það væri ekki rétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert