Undirbýr þolendur kynferðisofbeldis fyrir réttarkerfið

Gagnvirkur sýndarveruleiki en þátttakandi er settur í spor þolanda í …
Gagnvirkur sýndarveruleiki en þátttakandi er settur í spor þolanda í vitnastúkunni. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um kynferðisofbeldi sýna að sýndarveruleiki getur nýst sem hjálpartæki til að búa þolendur kynferðisbrota undir það að bera vitni. Rannsóknin var kynnt á málþingi sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík á fimmtudag.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Rannveigu S. Sigurvinsdóttur, dósent við sálfræðideild í HR, sem er ábyrgðamaður rannsóknarinnar.

Hugmynd frá tölvunarfræðinemum

Frumrannsóknin hófst árið 2020, en hugmyndin kom upprunalega frá nemendum í tölvunarfræði í HR sem höfðu setið valnámskeið hjá Rannveigu. 

„Þær voru nokkrar að gera lokaverkefni og fengu þessa hugmynd að það væri áhugavert að gera sýndarveruleika umhverfi sem væri eins og dómsalur með það í huga að hjálpa þolendum sem væru að fara sjálfir í dómsal,“ segir Rannveig.

Tilgangur frumrannsóknarinnar var að svara hvort þolendur hefðu áhuga á að nýta úrræðið, hvort umhverfið væri nógu raunverulegt og ef þátttakendur myndu mæla með því fyrir aðra. 

Rannveig S. Sigurvinsdóttir, ábyrgðamaður rannsóknar.
Rannveig S. Sigurvinsdóttir, ábyrgðamaður rannsóknar. Ljósmynd/Aðsend

„Sjokki yfir því hve raunverulegt þetta væri“

Í sýndarveruleikanum er þátttakandinn settur í spor þolanda í vitnastúkunni, þarf að kynna sig og svara nokkrum spurningum varðandi brotið, með geranda og aðra í kring um sig. 

Inngripið var stutt og voru streituviðbrögð mæld með hjartslætti. Niðurstöður sýndu að þátttakendur upplifuðu mikið uppnám og streitu vegna þess hve raunveruleg upplifunin væri.

„Fólk sem hafði reynslu úr dómsal talaði mjög skýrt um að þau væru komin aftur í alvöru aðstæður. Reynslan vakti upp svipaðar tilfinningar og í raunveruleika og lýsti ein því að hún væri í sjokki yfir því hve raunverulegt þetta væri,“ segir Rannveig.

Ýtir undir kjark

Hvers vegna er mikilvægt fyrir þolanda að nýta sér þessa tækni áður en hann fer í dómsal?

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Fólk er að tala um brot gagnvart þér og það getur verið erfitt að rifja það upp fyrir framan hóp af fólki og þú ert að mæta gerandanum. Flestir dómsalir eru litlir, þannig að maður situr næstum því við hliðina á gerandanum. Svo er þetta bara framandi umhverfi sem er mjög strúkterað og upplifir fólk oft óvissu og á erfitt að sjá fyrir sér hvernig það á að hegða sér.“

Rannveig segir rannsóknina hjálpa þeim sem óttast dómsalinn að fá meiri kjark og hefur fengið jákvæð viðbrögð frá þátttakendum í rannsókninni sem höfðu seinna meir stigið í dómsalinn.

Vinna hafin við framhaldsrannsókn

Jákvæðar niðurstöður úr frumrannsókn hafa opnað dyr fyrir framhaldsrannsókn um efnið. Í framhaldsrannsókninni verður inngripið lengt með því að hafa fólk lengur í dómsalnum og meta hvort það hafi áhrif á stjórn einstaklings á streituviðbrögðum sínum við umhverfið. Einstaklingarnir fara frekar í eitt langt skipti og síðan eftirfylgni til að meta hvort það hafi verið breyting í streituviðbrögðum. 

„Nýja rannsóknin snýst um að sjá hvort að fólk nái að róa sig með því að vera lengur í sýndarveruleikanum og hvort það upplifi að það hafi meiri stjórn á sínum streituviðbrögðum við þessu umhverfi.“

Aðrar breytingar eru á tækninni sjálfri. Salurinn verður gagnvirkari og verður eins og hlutverkaleikur þar sem svara þarf spurningum frá sækjanda, verjanda og dómara.

Tækni sem hægt væri að nýta til framtíðar

Er þetta eitthvað sem þið mynduð sjá fyrir ykkur að yrði notað í framtíðinni?

„Já ég held að það væri ótrúlega gott að gera það. Ég myndi vilja að inngripið sjálft yrði opið fyrir fólk. Þetta er núna hugsað fyrir þolendur kynferðisofbeldis en það mætti alveg nýta þetta fyrir sakborninga, fyrir annars konar málaflokka, bara alls konar í raun og veru. Það er ekkert sem segir að þetta þurfi að hætta hér,“ bætir Rannveig við að lokum.

Rannsóknin var unnin í samstarfi við ríkislögreglustjóra, fyrirtækið Statum og seinna meir ráðgjafahóp úr réttarkerfinu.

Ef að þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og hefur áhuga á að taka þátt í rannsókninni er hægt að skrá sig og fá meiri upplýsingar um hana á heimasíðu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert