Ingi svarar: Órökstuddar aðdróttanir

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa heimsótti vettvang talningarinnar á dögunum.
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa heimsótti vettvang talningarinnar á dögunum. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir í greinargerð sinni til Alþingis aðdróttanir um að auðum kjörseðlum hafi verið breytt „í seðil sem virðist vera gilt atkvæði“ eða gildum atkvæðum breytt í ógild vera órökstuddar og alvarlegar. 

Hafnar hann öllum slíkum aðdróttunum og segir þær í raun rangar sakagiftir sem varði við lög. Um er að ræða kenningar sem settar eru fram í kosningakæru Guðmundar Gunnarssonar, oddvita Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. 

Alþingi hefur, á vef sínum, birt greinargerð fráfarandi yfirkjörstjórnar kjördæmisins sem send er af Inga fyrir sína hönd, Guðrúnar Sighvatsdóttur og Ingibjargar Ingu Guðmundsdóttur, fulltrúa í yfirkjörstjórninni. Fram kemur að Bragi R. Axelsson og Katrín Pálsdóttir sem sömuleiðis eiga sæti í yfirkjörstjórninni standi ekki með að greinargerðinni enda telji þau ekki rétt að tjá sig um málið meðan sakamál vegna framkvæmda kosninganna er til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi. 

Enginn hafi átt við gögnin

Yfirkjörstjórn ítrekar fullyrðingar sínar um að enginn hafi átt við kjörgögnin meðan á  fundarfrestuninni stóð, frá sunnudagsmorgni 26. september til klukkan 13 síðdegis sama dag. 

Í greinargerðinni segir að kæra Karls Gauta Hjaltasonar, frambjóðenda Miðflokksins, veki furðu enda vilji hann byggja niðurstöðu í kosningum til Alþingis á röngum tölum.  

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneytið

„Það skal tekið fram að lokatölur eru ekki eitthvert hugtak sem verður til á ákveðnum tímapunkti þegar talning atkvæða fer fram og menn geti byggt réttarstöðu á þeim meintu lokatölum. Lokatölur eru þær tölur sem verða til þegar það er ljóst að endanleg talning hefur farið fram og þær tölur geti ekki breyst,“ segir í greinargerðinni. 

Umgangist sannleikann frjálslega

Þá er fullyrðingu í kosningakæru Karls Gauta um að boðun umboðsmanna og umgengni einstakra kjörstjórnarmanna um óinnsigluð kjörgögn og undirritanir í gerðabók yfirkjörstjórnar hafi ekki verið í lagi hafnað. „Enda færir kærandi engin rök fyrir þessum fullyrðingum sínum og umgengst sannleikann ansi frjálslega svo ekki sé meira sagt.“

Ítrekað er bent á að fundi yfirkjörstjórnar, og þannig talningu atkvæða, hafi ekki verið lokið að morgni sunnudags eftir kosningar, heldur hafi honum verið frestað. 

Hafi láðst að uppfæra lista yfir umboðsmenn

Um boðun umboðsmanna segir í greinargerð: 

Þegar ákvörðun um endurtalningu lá fyrir hringdi oddviti í umboðsmenn framboðslista og tilkynnti þá niðurstöðu. Varðandi boðun á umboðsmanni Pírata segir þetta í fundargerð YK: „Í því sambandi skal þess getið að vegna Pírata reyndi oddviti að hringja í Helga S. Þorsteinsson sem afhent hafði yfirkjörstjórn framboðslista flokksins en oddvita hafði láðst að uppfæra lista yfir umboðsmenn flokksins en það voru tveir efstu menn á framboðslista hans. Ekki náðist í Helga en skömmu síðar hafði Magnús Norðdahl samband við oddvita yfirkjörstjórnar þar sem hann hafði frétt af endurtalningunni. Magnús mætti síðan á talningarstað skömmu eftir að endurtalning hófst.“ Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð en þess skal getið að Píratar sáu ekki ástæðu til að hafa umboðsmann viðstaddan talningu atkvæða í kjölfar lokunar kjörstaða að kvöldi 25. september sl. Þá óskaði umboðsmaður ekki eftir bókun um t.d. endurtalninguna í gerðabók YK.

Þar sem YK stendur fyrir yfirkjörstjórn. 

mbl.is