Andrés sækist eftir 2.sæti hjá VG

Andrés Skúlason.
Andrés Skúlason. Ljósmynd/Aðsend

Andrés Skúlason gefur kost á sér í 2.sæti í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. 

Í tilkynningu frá honum kemur fram að hann hafi tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar allt frá stofnun hennar árið 1999 og hafi umtalsverða reynslu af sveitarstjórnarmálum „sat meðal annars í meirihluta í sveitarstjórn Djúpavogshrepps í samfellt 16 ár og þar lengst af sem oddviti“.

Andrés gegnir stöðu formanns Fornminjanefndar og segist í tilkynningu hafa brennandi áhuga á minjaverndarmálum. Þá vinnur hann einnig í hlutastarfi hjá Landvernd.

„Ég tel mig vera á besta aldri og hef gaman að takast á við nýjar áskoranir sem eru til þess fallnar að bæta samfélagið,“ segir í tilkynningunni.

Andrés er fæddur 1963,  giftur og á þrjú uppkomin börn og 7 barnabörn, býr í Úlfarsárdal og flutti alfarið búferlum til Reykjavíkur árið 2019 þar sem fjölskyldan býr öll í dag.  

„Helstu baráttumál mín ef mér yrði veitt brautargengi á þessum vettvangi snúa helst að umhverfis- og skipulagsmálum í borginni og þar er af mörgu að taka, en skipulagsmálin snerta að því er má segja alla innviði samfélagsins og framtíðarsýn. Þá vil ég vinna að því að búa þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu, fleiri tækifæri og betri lífsgæði með bættri þjónustu sem borginni ber að veita,“ segir í tilkynningu um áherslumál hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert