Reykjanesskagi að vakna eftir margra alda dvala

Landris hefur verið undir Reykjanesi við Þorbjörn frá því í …
Landris hefur verið undir Reykjanesi við Þorbjörn frá því í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir óvirkni svo öldum skiptir virðist sem svæðið sé að vakna,“ segir Dave McGarvie, eldfjallafræðingur við Lancaster-háskóla, í samtali við The Guardian. Bendir hann á að síðasta virka tímabil hafi staðið yfir í þrjár aldir, eða frá 10.-13. aldar, og það sama gæti verið upp á teningnum nú. 

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga síðustu vikur hefur skiljanlega vakið áhuga utan landsteinanna og veitir blaðamaður The Guardian því athygli að frá því janúar hafa náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands yf­ir­farið ríf­lega 8.000 skjálfta á svæðinu. Þetta er mesta hrina sem mælst hef­ur á Reykja­nesskaga frá upp­hafi mæl­inga. 

Blaðamaðurinn vekur einnig athygli á nálægð Bláa lónsins við jarðskjálftavirknina sem og þeirri staðreynd að eini alþjóðaflugvöllur Íslands er á svæðinu þar sem virknin hefur mælst. 

Landris mæl­ist enn með miðju vest­an við Þor­björn. Sam­tals nem­ur landrisið um 10 cm frá því í lok janú­ar á þessu ári. Líkön af kvikuinn­skoti gefa til kynna syllu á 3-4 km dýpi sem fram­kall­ar um­tals­verða jarðskjálfta­virkni á stóru svæði norðan við Grinda­vík. Eng­in merki eru um að kvika sé að fær­ast nær yf­ir­borði.

Landris mæl­ist enn með miðju vest­an við Þor­björn. Sam­tals nem­ur …
Landris mæl­ist enn með miðju vest­an við Þor­björn. Sam­tals nem­ur landrisið um 10 sm frá því í lok janú­ar á þessu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við The Guardian að í versta falli geti hraun flætt í átt að Grindavík. 

Jarðskjálftavirkni er enn mikil þótt dregið hafi úr stærri skjálftum á Reykjanesskaganum. Jörð skalf þó þar í morgun þegar skjálfti af stærð 3,2 varð um 4,6 kílómetra norðvestur af Grindavík. 

Í atburðum síðustu vikna telja vís­inda­menn að þrjú inn­skot hafi orðið á ár­inu. Fyrsta inn­skotið varð 21. janú­ar til 1. fe­brú­ar, sylla vest­an við Þor­björn á um 4 km dýpi. Frá 15. fe­brú­ar til 7. mars varð inn­skot vest­ast á Reykja­nesskag­an­um, en lík­lega er þeirri þenslu lokið í bili. Frá 6. mars til dags­ins í dag er önn­ur ris­hrina í gangi vest­an við Þor­björn. Líkön­in sýna syllu á um 3,5 km dýpi og um helm­ingi minni ris­hraða en í fyrri hrin­unni.

Reykjanesskagi er þekktur fyrir jarðskjálftavirkni. Á síðustu öld mæld­ist veru­leg virkni víða á Reykja­nesskaga á ár­un­um 1927-1955 og 1967-1977. Snemma á þess­um virkni­tíma­bil­um urðu jarðskjálft­ar við Brenni­steins­fjöll, þ.e. M 6,3 árið 1929 og svo M 6,0 árið 1968, sem eru stærstu skjálft­ar sem mælst hafa í grennd við höfuðborg­ar­svæðið og geta valdið tjóni.

McGarvie bendir á að íbúar á svæðinu, og líklega afkomendur þeirra, megi búa sig undir það að vera á varðbergi og vera viðbúnir því að þurfa að rýma svæðið, rétt eins og almannavarnir hafa brýnt fyrir íbúum síðustu vikur og mánuði.

Frá íbúafundi í Grindavík í lok janúar þegar skjálftavirkni á …
Frá íbúafundi í Grindavík í lok janúar þegar skjálftavirkni á Reykjanesskaga jókst. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert