Geimferja SpaceX sprakk í loft upp

Gríðarlegt eldhaf myndaðist sem gjöreyðilagði geimferjuna.
Gríðarlegt eldhaf myndaðist sem gjöreyðilagði geimferjuna. Skjáskot

Geimfaraframleiðandinn SpaceX, sem er í eigu Elon Musk, lenti í öðru áfalli á jafn mörgum dögum þegar frumgerð geimferjunnar Starship sprakk í loft upp í kvöld skömmu eftir að kveikt var á vél hennar. Ekki er ljóst hvort einhver slasaðist í sprengingunni.

Starship-geimferjan gjöreyðilagðist og einhverjar skemmdir urðu á staðnum þaðan sem eldflaugin átti að fara í loftið. Enginn var um borð í geimferjunni en smíði hennar er hluti af verkefni SpaceX sem gengur út á að senda fólk til tunglsins og Mars.

Tengist ekki samvinnuverkefni NASA og SpaceX

Var þetta fjórða frumgerð Starship sem springur í loft upp en sú þriðja sprakk í byrjun apríl. Þetta kemur fram á The Guardian.

Starship-eldflaugin tengist ekki samvinnuverkefni SpaceX og NASA og geimskoti Crew Dragon-geimferjunnar sem átti að fara í loftið á miðvikudag en var frestað vegna veðurs.

Það hefði verið fyrsta mannaða geimskotið frá Bandaríkjunum í áratug. Til stendur að gera aðra tilraun til að senda Crew Dragon út í geim annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert