Skortir aga í heimavinnunni

Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.
Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar segir að hún borði meira og sé latari þegar hún er heima að vinna. Hún segir að það skipti mestu máli að halda í húmorinn og reyna að hafa gaman þótt kórónuveiran sé að gera okkur lífið leitt. 

Hvernig ertu að bregðast við vegna samkomubannsins?

„Leikhúsið hefur náttúrlega þurft að laga sig að breyttum aðstæðum í haust og við höfum frestað og fært til sýningar. Við erum þó svo heppin að vera lítil og sveigjanleg og höfum t.d. getað sýnt eina sýningu, Tæringu, í samstarfi við Hælið á Kristnesi, alveg frá því hún var frumsýnd í september. Tæring er innblásin af sögu berklasjúklinga og því byggt á raunverulegum heimildum. Aðeins 10 áhorfendur komast inn á hverja sýningu og allir eru með grímu þannig að þetta gæti ekki átt betur við en á þessum tímum, fyrir nú utan hversu beint þetta verk talar inn í samtíma okkar. Við erum síðan að æfa þriggja manna gamansýningu sem heitir Fullorðin og frumsýnd verður í lok mánaðar. Veitir víst ekki af að létta fólki lundina. Ég get því ekki kvartað. Við höfum náð að halda sjó og laga okkur að þessu eins vel og hægt er,“ segir Marta. 

Ertu í fjarvinnu heima eða mætir þú í vinnuna?

„Ég hef nú verið að mæta í vinnu langflesta daga en held mér þó í hæfilegri fjarlægð frá öðru starfsfólki. Ég vinn með svo skemmtilegu fólki að ég verð að komast í vinnu af og til svo ég geti hitt þau og hlegið með þeim. Þannig að það er fyrst og fremst félagsþörfin sem knýr mig í vinnuna þessar vikurnar sem og vissan um að ég geti orðið að meira gagni þar en heima hjá mér. Þó koma einstaka dagar þar sem ég er heima og vinn þaðan og þá unir maður bara við það. Það er auðvitað verið að hvetja mann til þess.“

Hvernig virkar það?

„Svona og svona, ég er mikill sveimhugi og finnst alveg næs að vera heima allan daginn af og til. Vandamálið er bara það að mig skortir aga og er að auki með léttan athyglisbrest; er allt í einu farin að þvo þvott af mikilli áfergju eða hanga á einhverjum heimasíðum að skoða föt og annað drasl sem mig vantar auðvitað ekki neitt eða ég dregst að ísskápnum í tíma og ótíma. Þetta virkar semsagt ekkert sérstaklega vel hjá mér þótt mér finnist ég auðvitað sístarfandi.“ 

Hvað gerirðu til að brjóta upp daginn?

„Ef ég nenni þá labba ég kannski á kaffihús að skoða blöð eða, sem er mun ólíklegra, fer út að hlaupa en finn mér nú yfirleitt afsakanir til að sleppa slíku erfiði.“

Hvað borðarðu til dæmis í hádegismat?

„Ég borða bara eitthvað sem ég tíni úr ísskápnum, get verið sínartandi allan daginn, algerlega agalaus eins og smábarn. Verst er auðvitað þegar ég dett í nammið og óhollustuna en þá halda mér engin bönd og ég ligg bara á beit. Er núna í sykurbindindi í nokkrar vikur en ég get verið alveg svakaleg ef súkkulaði og lakkrís er annars vegar, hvað þá ísinn. Gerði heiðarlega tilraun til að sleppa kaffi í nokkra daga en eftir veruleg fráhvörf í heilan dag snarhætti ég við það.

Ef ég er í vinnunni þá haga ég mér auðvitað ekki svona og held mér á mottunni þar til ég fæ mér hádegismat á einhverju virðulegu veitingahúsi hér í bæ.“

Hvað gerir þú til að halda geðheilsunni í lagi?

„Geðheilsan er yfirleitt í ágætis formi sem betur fer. Er frekar létt í lundu þrátt fyrir ástandið og sæki markvisst í húmorinn. Það koma auðvitað tímar sem einhverjar leiðindahugsanir sækja á mann en ég díla bara við það. Viðfangsefni mín í leikhúsinu bjarga geðheilsunni. Mér finnst allt skemmtilegt í vinnunni enda er leikhúsið mitt helsta áhugamál. Og jú, ég hef alltaf frá því ég man eftir mér hreyft mig reglulega og það hefur auðvitað bein áhrif á geðheilsuna.“

Ertu að hreyfa þig eitthvað?

„Ég tók í haust eina af mínum bestu ákvörðunum í langan tíma og skráði mig í gönguhóp sem labbar fjórum sinnum í mánuði upp um öll fjöll hér í nágrenninu. Þetta heldur mér í formi og eflir sjálfstraustið. Mér finnst alltaf eins og ég hafi gengið á Everest þegar ég er búin í þessum göngum, slík er sjálfsánægjan. Þetta er þó sannarlega ekki tóm sæla meðan á því stendur því mér finnst ennþá mjög erfitt að ganga upp í móti og þarf að taka á öllu mínu að leggjast ekki í helgan stein á leiðinni en þegar upp er komið er þetta allt þess virði og við tekur mikið mont. Þegar líkamsræktin er opin þá fer ég líka þangað og lyfti lóðum og hamast á dýnunni. Tek síðan hlaupatímabil af og til og þótt mér finnist það ekkert það skemmtilegasta í heimi þá læt mig hafa það. Ég semsagt hreyfi mig talsvert og ekki síst til þess að ég tútni ekki meira út en ástæða er til af öllu þessu áti.“

Hver er galdurinn við að missa ekki vitið á veirutímum?

„Ég veit það ekki, ég er nú svo mikið letidýr að þetta hentar mér að einhverju leyti ágætlega, hægt tempó, einfaldleiki og engin læti. Ég hef líka fágæta aðlögunarhæfni. Annars held ég að það sé mjög mikilvægt bara almennt í lífinu að halda sér á hreyfingu andlega. Vera að fást við eitthvað sem örvar og gleður hugann hvort sem það er lestur, handavinna, útivist, vinna eða bara hvað annað. Rækta áhugamálin sín og það sem er andlega nærandi. Þó held ég að drykkja og dóp sé alls ekki málið á svona tímum og örugglega alversta hugmyndin að snúa sér að því. Ég er heppin að elska vinnuna mína þannig að hún heldur minni geðheilsu í blússandi gír. Svo er það náttúrlega útivistin. Hún er núna að koma sterk inn. Og húmorinn. Hann er besti vinurinn.“

Hvernig hefur veiran haft áhrif á þig og fjölskyldu þína?

„Ég hef fitnað talsvert eftir að hún kom til skjalanna og hef því ákveðið að kenna henni alfarið um það. Að öðru leyti hefur hún ekki haft vond áhrif á mig persónulega. Við höfum ekki smitast og við þökkum fyrir það.

Ég held að hún hafi að mörgu leyti róað okkur fjölskylduna niður og gefið okkur meiri tíma til samvista. Við vorum í tveggja vikna sóttkví fyrr á árinu og það var bara mjög notalegt. Við vorum eins og birnir í híði, tíminn varð afstæður, við hreyfðum okkur hægt og það var engin utanaðkomandi pressa eða álag. Okkar eigin litla veröld í veröldinni.“

Á hvern skorar þú til að svara þessum spurningum?

„Evu Maríu Jónsdóttur æskuvinkonu mína.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman