Heimaræktin í bílskúrnum eins og himnasending

Rafn Franklín Hrafnsson ræðir við Andra Iceland í þætti sínum …
Rafn Franklín Hrafnsson ræðir við Andra Iceland í þætti sínum 360°Heilsa.

Rafn Franklín Hrafnsson einkaþjálfari í Hreyfingu útbjó líkamsræktaraðstöðu í bílskúrnum heima hjá sér og segir að það komi sér vel núna. Hann lætur samkomubann þó ekki stoppa sig í að þjónusta kúnnana sína. Hann ætlar að nýta tæknina og býður nú upp á fjarþjálfun á meðan á samkomubanni stendur.

„Ég ætla að nýta þá frábæru tækni sem við höfum og færa mína þjónustu yfir á rafrænt form eða fjarþjálfun. Ég lít á þetta sem skemmtilegt tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og finna nýjar leiðir til að aðstoða fólk við að bæta heilsuna og koma sér í betra form. Kosturinn við slíka þjálfun er auðvitað líka að þú getur æft á þeim tíma sem þér hentar best en með fullan aðgang að þjálfara ef þörf krefur,“ segir Rafn. 

Hvað getur fólk gert til þess að halda sér á mottunni á meðan á þessu ástandi stendur? 

„Nú reynir vissulega meira á okkur, viljastyrkinn og sjálfsagann. Hefðbundin rútína er komin í annað form sem gæti falið í sér að fólk freistast til að sleppa æfingum, hanga í sófanum og „tríta sig“ meira.

En eins og ég horfi á það, þá er þetta akkúrat tíminn til að setja fókusinn á sjálfan sig og rækta heilsuna. Þennan tíma er hægt að nýta til að brjóta upp gamla og slæma vana og byggja upp nýja og uppbyggjandi rútínu,“ segir hann. 

Hver er besta æfing í heimi til að gera heima hjá sér? 

„Ég vil meina að besta æfingin í heimi til að gera, hvort sem það er heima hjá þér eða annars staðar, er æfingin sem þér finnst skemmtileg. Því þá ertu líklegri til að gera hana aftur og aftur og það lykillinn sem skilar árangri. Það eru svo til mikið af frábærum og krefjandi æfingum til að gera með eigin líkamsþyngd eins og hnébeygjur, armbeygjur, framstig ásamt fleirum krefjandi æfingum sem hægt er að framkvæma á mismunandi máta til að setja mismunandi álag á skrokkinn.“

Getur fólk náð árangri eitt heima hjá sér? 

„Ef viljinn er fyrir hendi, þá klárlega. Ég held hinsvegar að vandamálið sé oft og tíðum það að fólk er ekki alveg öruggt á hvernig það á að setja upp æfingarnar og hvernig er best að framkvæma þær og þess vegna sé oft auðvelt að geyma æfinguna „þangað til á morgun“ sem fjarar síðan út í ekkert.

Ég finn mikið fyrir þessu hjá mínum kúnnum og þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég setti upp 4 vikna 360 heilsa netnámskeiðið. Þar færð þú aðhaldið, rútínuna og hvatninguna til að halda áfram og ná raunverulegum árangri og lífstílsbreytingu í þessu ástandi,“ segir Rafn. 

Nú ert þú með heimarækt í bílskúrnum. Segðu mér betur frá því?

„Ég er svo heppinn að eiga þokkalega aðstöðu heima í skúrnum með helstu tólunum sem ég þarf. Lyftingarekki, ketilbjöllur, stangir, teygjur og fleira. Þetta hefur lengi verið draumur hjá mér, að eiga mitt eigið svæði þar sem ég get algjörlega kúplað mig út og tekið góða æfingu.

Þetta hefur líka orðið til þess að ég er líklegri til að stökkva oftar á æfingar, jafnvel þó þær séu stuttar, sem ég ella hefði sleppt vegna tímaleysis. 

Þrátt fyrir að ræktin hafi ekki verið sérstaklega hugsuð fyrir COVID þá kemur sér einstaklega vel núna þegar líkamsræktarstöðvar eru lokaðar, að geta tekið kröftugar æfingar heima.“

Hvernig kviknaði hugmyndin að 360 heilsa netnámskeiðinu

„Mig hefur lengi langað að halda heilsu námskeið þar sem ég sameina alla helstu þætti tengda heilsu. Hreyfing - næring - svefn - streitustjórnun, jafnvægi og þessir þættir sem eru grunnurinn að heilbrigði og góðum lífsstíl.

Mér finnst líka mikilvægt að leggja áherslu á mikilvægi þess að rækta heilbrigt ónæmiskerfi og heilbrigðan líkama á tímum eins og þessum. Bæði fyrir okkur sjálf að sjálfsögðu og líka til að lágmarka byrgðina á heilbrigðiskerfið. 

Þetta 4 vikna heilsunámskeið er hugsað út í gegn til að aðstoða þig að læra betur hvað býr til betra heilbrigði með markmiðasetningu, fræðslu, vikulegum heilsufyrirlestrum, áskorunum í mataræði, heimaæfingum, ráðum fyrir bættan svefn, daglegri hvatningu og öllu sem þú þarft til að ná árangri. Ég trúi því að þetta sé akkúrat tíminn til að taka heilsuna í gegn og setja sig í fyrsta sæti.“

HÉR er hægt að fá nánari upplýsingar. 

mbl.is