Varð alkóhólisti 14 ára gamall

Gunnar Reykfjörð sagði sögu sína í hlaðvarpinu Það er von.
Gunnar Reykfjörð sagði sögu sína í hlaðvarpinu Það er von.

Gunnar Reykfjörð er 55 ára gamall faðir sem hefur verið í bata frá fíknisjúkdómi í fjögur ár. Gunnar ólst upp við alkóhólisma fram til 13 ára aldurs en þá fór faðir hans í meðferð og hætti drykkju. „Ég þurfti töluvert fleiri tilraunir en hann til að hætta,“ segir Gunnar.

Allt frá barnsaldri upplifði Gunnar mikla skömm varðandi sjúkdóminn og rifjar hann upp að hafa falið AA bók föður síns fyrir vinum sínum í stað þess að fagna batanum, svo skömmin hvarf ekki þrátt fyrir að neyslu hafi verið hætt á heimilinu.

Á fjórtánda ári drakk Gunnar áfengi í fyrsta skipti, hann man vímuna og segist hafa orðið alkóhólisti strax þá. „Ég gat varla staðið upp en hafði þó vit á að koma mér heim og ældi í hvern garð á leiðinni. Ég ætlaði að láta sem ekkert væri þegar ég kom heim og bauð mömmu góða kvöldið nokkrum sinnum, ætlaði að láta mig sunka í sófann en rak þá höfuðið í gluggakistu og rotaðist,“ segir Gunnar.

Eftir þetta kvöld kom Gunnar ekki niður víni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, hann þráði vímuna en kom því ekki niður fyrr en um 15 ára aldur. Þegar hann var 18 ára gamall varð hann ástfanginn, eignaðist barn og fór að fela drykkjuna.

Alkóhólisminn fór að þróast og eftir að Gunnar flutti til Bandaríkjanna kynntist hann nýjum vímuefnum sem ekki voru til á Íslandi í þá daga. „Efnin voru himnasending, ég fann ekki til,“ segir Gunnar um sín fyrstu kynni af nýju vímuefnunum í Bandaríkjunum.

Eitt leiddi af öðru og áður en hann vissi af var fíknin búin að taka öll völd. „Læknar komust að því síðar að ég hafði orðið fyrir taugaskemmdum í fyrsta skipti sem ég reykti krakk,“ segir Gunnar

Gunnar lifði tvöföldu lífi, vann við að keyra út fisk á nóttunni og neytti hugbreytandi efna á daginn. Neyslan varð þannig að hún kom í veg fyrir að hann tæki við stöðuhækkun því þá myndi vinnan trufla neysluna.

Gunnar segir frá því hvernig neyslan þróaðist og hann missti stjórnina. „Einn daginn er mér sagt að það sé ekki til neitt kókaín og ég kynntur fyrir manni í jakkafötum með regnhlíf. Þar keypti ég mér heróín í fyrsta skipti,“ segir Gunnar.

25 ára gamall kom hann heim til Íslands og fór í meðferð. Stuttu síðar í partíi komst Gunnar í kynni við sprautur. „Ég var fullur og sagði, sullaðu í eina fyrir mig,“ segir Gunnar.

Það varð vendipunktur í lífi Gunnars þegar hann fékk að fara til móður sinnar, en hún hefur alltaf haft trú á að hann muni ná bata á endanum. Gunnar kynntist konu þegar hann var búinn að vera edrú í ár, sú kona var skilin að borði og sæng. Eina örlagaríka nótt var konan myrt í svefni, sá sem framdi morðið var fyrrverandi eiginmaður hennar en hann svipti sig einnig lífi. Gunnar var settur á róandi lyf eftir þetta stóra áfall en á endanum varð það til þess að hann varð edrú.

Viðtalið í fullri lengd er að finna á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is