Tennisskáli Melaniu umdeildur

Fólk er misánægt með tennisskála Melaniu Trump.
Fólk er misánægt með tennisskála Melaniu Trump. AFP

Melania Trump forsetafrú Bandaríkjanna svipti hulunni af nýjum tennisskála á lóð Hvíta hússins í vikunni. Verkefnið hefur verið í gangi síðan árið 2018 en tímasetningin þykir afar óheppileg og margir netverjar lýst yfir vanþóknun sinni. 

Nýja húsið stendur við tennisvöll á lóð Hvíta hússins. Tennisvöllurinn var einnig gerður upp ásamt garði á lóðinni. Hönnun hússins og garðsins var innblásin af Hvíta húsinu og þá sérstaklega austur- og vesturálmum hússins. Sjálf segist frú Trump vona að svæðið nýtist sem best fjölskyldum sem munu dvelja í Hvíta húsinu í framtíðinni. Trump-fjölskyldan flytur úr húsinu eftir áramót. 

Hér má sjá svarthvíta mynd af nýja húsinu við tennisvöllinn.
Hér má sjá svarthvíta mynd af nýja húsinu við tennisvöllinn. Ljósmynd/Hvíta húið

Þrátt fyrir að fram komi í yfirlýsingu á vef Hvíta hússins að verkefnið hafi verið lengi í bígerð og það sé fjármagnað með fjárframlögum frá einkaaðilum eru ekki allir sáttir. Þykir það meðal annars skjóta skökku við að hús við tennisvöll á lóð Hvíta hússins sé forgangsverkefni á meðan fólk er að deyja í heimsfaraldri.


 

mbl.is