Fékk sér draumaíbúðina fyrir jólin

Jenný Dagbjört gerði íbúðina upp fyrir jólin.
Jenný Dagbjört gerði íbúðina upp fyrir jólin. mbl.is/Árni Sæberg

Jennýju Dagbjörtu Gunnarsdóttur þróunarfulltrúa leikskóla Hafnarfjarðar langaði að búa í draumaíbúðinni sinni fyrir jólin. Hún íhugaði að festa kaup á nýju húsnæði, en tók svo ákvörðun um að gefa íbúðinni sinni andlitslyftingu sem tókst heldur betur vel hjá henni. 

„Ég er að æfa mig í að setja mig í fyrsta sæti, en á það til að ofhlaða á mig verkefnum. Ég reyni að flokka og raða hverju ég set í forgang og hvað má bíða; svo ég geti notið augnabliksins og lifað í deginum í dag.“

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Fyrir utan að vera búin að vera í heimavinnu vegna kórónuveirunnar er ég að passa upp á mig með því að fara út í langa göngutúra. Mér finnst það mjög gott því ég á það til að sitja bara við vinnuna og gleyma mér og svo allt í einu er komið myrkur. Það er ekki gott fyrir mig því þá rennur dagurinn einhvern veginn út í eitt. Ég er mikil sundkona og sakna þess alveg svakalega að komast ekki í daglega sundið mitt. Annars reyni ég ávallt að velja mér viðhorf inn í daginn og segja mér að hver dagur er gjöf fyrir mig og hamingja mín felst í því að vera hér og nú.“

Var áður óstjórnlega spennt fyrir pökkunum

Hvaða hug berðu til jólanna?

„Mér finnst jólin yndislegur tími, það kemur alltaf einhver spenningur í mig eins og þegar ég var lítil stelpa. Þegar ég var lítil var ég óstjórnlega spennt fyrir pökkum og ekki skrýtið því ég fékk og fæ enn alltaf svo fallegar gjafir frá mínum nánustu. Í dag felst tilhlökkunin meira í því að njóta þessa dásamlega tíma með góðum mat, samveru og hvíld. Ég vinn mikið og það er svo gott að eiga þessa jóladaga í hvíld. Ég hef það líka einnig að markmiði um hver jól að lesa í það minnsta eina bók sem ég óska mér í jólagjöf.“

Jenný segir börn einstök fyrir margra hluta sakir.

„Börn eru snillingar í að njóta í núinu og hafa gaman. Þau eru ekki í neinu lífsgæðakapphlaupi líkt og fullorðnir. Þau eru líka svo þakklát og við verðum ávallt að leyfa þeim að hlakka til en foreldrar verða að passa að láta þau ekki bíða, sérstaklega þegar kemur að aðfangadegi, því börn eiga erfitt með að bíða og tímaskyn þeirra er allt öðru vísi en fullorðinna. Tíminn þeirra er mun lengur að líða. Einnig er samvera fjölskyldna mjög mikilvæg. Að börn fái að njóta öryggis og vellíðunar ekki bara á jólum heldur alltaf. Það færir þeim öryggi og vellíðan til frambúðar. Þegar ég var lítil lét mamma okkur systkinin leggja okkur um miðjan daginn til að stytta biðina en það virkaði nú ekki alveg.“

Hvernig hefur gengið að gera upp íbúðina?

„Ég er búin að vera að stússa í því í haust að gera upp íbúðina mína og er það búið að vera sannkallað ævintýri. Það var löngu kominn tími á að ég gerði eitthvað við íbúðina. Húsið var byggt árið 1990 og allt upprunalegt í því. Ég hugsaði alveg út í það að kaupa nýrri eða jafnvel nýja íbúð en svo fór ég að hugsa að ég tímdi alls ekki að fara úr hverfinu svo þá var ekkert annað að gera en fara í þessar framkvæmdir, sem ég sé sé ekki eftir núna.“

Fagfólk gerir kraftaverk

Jenný mælir með því fyrir alla að fá fagfólk í verkin.

„Það gerði algjörlega gæfumuninn fyrir mig að fá mér arkitekt, Rakel Hafberg hjá Berg hönnun. Hún teiknaði allt og kom með hugmyndir og fór með mér í allar búðir. Eins kom hún með prufur og í raun fylgdi hún mér í ferlinu frá upphafi til enda. Ég held að það sé nauðsynlegt þegar maður er einn í svona framkvæmdum; að hafa sérfræðinga á sínum snærum.“

Hvað kom á óvart varðandi breytingarnar?

„Það sem kom á óvart er hvað iðnaðarmenn eru flinkir og vandvirkir og allt hefur staðist hjá þeim. Einnig hve margt er hægt að gera og hvað það eru til margar alls konar lausnir og hvað það er margt skemmtilegt og spennandi til og mikið úrval af. Mér fannst erfitt að velja, að ákveða hvernig ég vildi skreyta og gera heimilið fallegt. Ég hef aldrei hugsað um neitt þessu líkt, hvað þá farið inn í flísabúðir eða verslanir sem selja alls konar dót inn á bað. Svo hefur Elvar Gunnarsson bróðir minn aðstoðað mig við alla málningarvinnu. Ég gæti ekki verið með meiri fagmann í því.“

Jenný er ein af þeim sem gera hlutina sjálf. Hvaðan er það komið?

„Ég er ekki viss um hvaðan það er komið. Ég hef bara alltaf verið svona. Gert allt og skipulagt sjálf. Líklega er ég alin þannig upp en ég á harðduglega foreldra sem héldu alltaf áfram og byggðu upp allt sitt með mikilli vinnu. Ég tel að fái maður slíkt veganesti þá geri maður slíkt hið sama. Svo er það einhvern veginn þannig að líklega gefst ég aldrei upp.“

Skynsöm í fjármálum

Jenný segir ýmislegt hafa komið sér á óvart við að gera íbúðina upp og þá peningalega.

„Ég hef búið í þessari íbúð síðan árið 2003 en ég keypti hana með fyrrverandi manninum mínum. Við skildum árið 2006 og þá héldum ég og börnin okkar tvö áfram að búa hér. Ég hef ekkert gert hérna fyrr en nú því ég átti fullt í fangi með að greiða af lánunum en ég er frekar skynsöm og hef lítið verið í því að eyða um efni fram heldur látið það duga það sem ég hef haft á milli handanna. Ég var aldrei neitt að hreyfa lánin, skuldbreyta né neitt, þannig að ég borgaði alltaf af þeim í öll þessi ár. Verðgildi íbúðarinnar hefur auðvitað aukist jafnt og þétt eftir því sem árin líða og þegar ég fór svo að skoða þetta allt saman sá ég að ég skuldaði orðið mjög lítið í henni og lánin sem verið er að bjóða í dag eru mjög hagstæð svo þetta var ekki spurning fyrir mig að fara út í þessar framkvæmdir. Ég veit nú kannski ekki hvort ég sé mjög rík en ég kemst vel af með það sem ég á og ég get ekki annað sagt en ég sé lukkunnar panfíll.“

Hvernig lýsirðu nýja heimilinu þínu?

„Það er mjög fallegt en ég myndi segja það samt frekar hefðbundið með glæsilegum nýjum innréttingum og miklum þægindum. Íbúðin er stór og það er mikið útsýni. Einnig er hún björt og hér er nóg pláss.“

Hvernig skreytirðu fyrir jólin?

„Ég er mjög hefðbundin þegar kemur að skreytingum fyrir jólin. Mér finnst jólarauður klassískur og fallegur og þannig skreyti ég með rauðum kertum, ljósum og kúlum og dúkum. Það á mjög vel við mig og það finnst mér fallegt og færir mér vellíðan.“

Jólahlaðborðin skipta miklu máli

Hvað gerir þú alltaf fyrir jólin með fjölskyldunni?

„Það er nú ekkert svona fast heldur meira það sem til fellur. Það sem hefur verið fast hjá okkur síðustu aðventur er jólahlaðborð þar sem allir velja það sem þeim finnst gott og við borðum saman. Ég held að það sé meira samveran sem við sækjum í og það að vera saman því við erum upptekin og út og suður og þá er gott að ná öllum saman. Eitt sem við gerum alltaf á aðfangadag sem hefur verið siður síðan krakkarnir voru litlir er að horfa á jólaævintýri Mikka og Home Alone. Þótt krakkarnir mínir séu orðnir fullorðnir höfum við haldið í þennan sið.“

Hver er besta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

„Það er rauð kasmírullarkápa sem ég fékk frá foreldum mínum fyrir margt löngu. Ég var svo ánægð með hana að ég var í henni inni á aðfangadagskvöld. Þessi kápa hefur fylgt mér allar götur síðan og enn er hún hér inni í skáp nýkomin úr hreinsun.“

Áttu góð ráð fyrir fólk með ung börn sem langar að gera eitthvað skemmtilegt um jólin?

„Það er mjög gott að foreldrar plani svolítið hvað þeir ætla að gera með börnunum sínum um jólin og mikilvægast er að eiga næga samveru og gera eitthvað saman og það er ýmislegt sem hægt er að gera bæði úti við og inni. Bakstur, skreytingar, matargerð og margt annað. Ef ég ætti litla krakka í dag myndi ég búa til með þeim jólaskraut úr einhverju endurunnu og fara svo út og hengja í tré jafnvel í nágrenninu eða úti í garði. Láta hugmyndaflugið ráða. Það er svo margt hægt að gera og ef maður er hugmyndasnauður er hægt að fá góðar hugmyndir á netinu.“

Söngkona sem mun finna sínar leiðir um jólin

Jenný er mikið fyrir að syngja og stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík, FÍH og svo í Berklee College-tónlistarskólanum í Boston.

„Ég syng alltaf um jólin. Ég er í kór Kópavogskirkju og það eru ekki jól nema ég syngi með kórnum mínum um jólin. Reyndar verður það með öðru sniði í ár. Líklega verða engar hátíðarmessur eða þær verða með öðru sniði. Ég hef mjög gaman af því að syngja og söngurinn er alltaf í bakhöndinni og er ég þakklát fyrir að hafa tækifæri til þess að geta nýtt þessa hæfileika mína, allavega svona á sparidögum.“

Jenný segir að lokum að hún sé mjög sæl og glöð með að hafa tekið þessa ákvörðun fyrir jólin. Að gera allt fallegt í kringum sig og standa með sér. „Það er heilmikið að standa í svona framkvæmdum þegar maður þarf auðvitað að sinna vinnunni á sama tíma. Núna þarf ég ekki að hugsa um neitt næstu árin nema lifa og njóta. Allavega ekki íbúðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál