Þeir sem áttu mávastell - og hinar sem voru að safna fyrir því

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eitt er að elda girnilegan og framúrskarandi jólamat, annað er að bera hann fallega fram og leggja þannig á borð að fólk komist í einstakt jólaskap. Að það séu jól – ekki bara enn einn súri þriðjudagurinn. Kerti, servíettur og greinar í vasa geta breytt borðhaldinu. 

Það er sterk hefð fyrir því í okkar samfélagi að fólk safni stelli. Þegar ég var spurð að því í fyrsta skipti hvaða stelli ég væri að safna fannst mér spurningin framandi. Ég hafði nýverið keypt fyrstu íbúð og átti varla fyrir mat. Manneskja í slíkri stöðu safnar ekki rándýrum matardiskum.

Í kringum þrítugt fannst mér við hæfi að fara að safna stelli og gat ómögulega ákveðið hvaða stelli ég ætti að byrja að safna. Mest langaði mig að safna matarstelli frá tískumerkinu Kenzo en þeir diskar fengust bara í einni verslun sem ég vissi um og hún var í Kaupmannahöfn. Á þessum árum var ég lítið að skjótast til Kaupmannahafnar og alls ekki til að kaupa mér diska í stellið. Þessari diskasöfnun lauk því eiginlega áður en hún hófst fyrir alvöru. Síðan þá hef ég leitað að þessum diskum en sú leit hefur ekki skilað árangri ennþá. Diskarnir eru þó jafnfallegir í dag og þeir voru þá.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að hafa farið sirka 180 hringi í hraðlest hugans um hvaða stelli væri gaman að safna varð mávastellið fyrir valinu. Það þótti pínu hallærislegt á þeim tíma og var ekki komið á þann stað að fólk væri að slást um það í lokuðum í facebook-hópum. Þótt mávar séu kannski ekki kóngarnir í dýraríkinu þá eru þeir ósköp friðsælir þegar búið er að handmála þá á postulín. Stellið minnti mig líka á allar góðu veislurnar sem voru haldnar heima hjá langömmu minni, Huldu Sólborgu Haraldsdóttur, og langafa mínum, Jónasi Böðvarssyni, sem var lengst af skipstjóri hjá Eimskip. Þar var til mávastell fyrir 24 og þegar stórfjölskyldan kom saman var það notað – þótt það þyrfti að handþvo hvern einasta disk.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Mávastellið á sér langa sögu. Það var fyrst framleitt 1892 af Bing & Grøndahl, sem var stofnað 1853. Stellið hefur í gegnum tíðina verið eitt vinsælasta stell Danmerkur, sem kemur kannski ekki á óvart. Hugmyndin að stellinu er sótt í danska náttúru, öldugang hafsins, hafskeljar, fljúgandi fugla og himininn sjálfan. Þegar mávastellið var hvað vinsælast voru til tveir hópar í Danmörku; þeir sem áttu mávastell og svo þeir sem voru að safna fyrir því. Það kemur ekki á óvart því litapallettan í því er einstaklega hátíðleg og falleg. Blái liturinn, grái liturinn og áferðin á stellinu skapa einstaka heildarmynd. Það er hægt að fá stellið í mismunandi útgáfum, með gullbryddingu og án hennar, og í mörgum mismunandi formum og lögum og í gegnum tíðina hefur verið framleitt endalaust mikið af fallegum munum sem tilheyra mávastellinu. Áður en innismókurinn skilaði skömminni þótti til dæmis mjög fínt að eiga sígarettuvasa í mávastellinu til að hafa á borðum þegar gesti bar að garði.

Að mínu mati er mávastellið þannig að það passar við allt. Það er hátíðlegt við hvítan dúk en það má líka nota það við litríka dúka, röndótta eða köflótta. Í gegnum tíðina hef ég oft keypt efni í IKEA, faldað það ef ég nenni og notað sem dúk.

Þegar ég lagði á þetta jólaborð með mávastellinu byrjaði ég á því að setja tvo hvíta hördúka á borðið því borðið er kringlótt og einn dúkur er of lítið. Yfir hördúkana setti ég dúk sem er saumaður út með munstri frá Royal Copenhagen, Musselmalet, en stellið með því munstri kom á markað í Danmörku 1775. Það var hins vegar íslensk kona sem saumaði dúkinn út og seldi á Jólabasar Hringsins sem haldinn er árlega til styrktar Barnaspítala Hringsins. Viðkomandi var í hálft ár að sauma dúkinn út og er handverkið framúrskarandi. Þessi dúkur er sérlega fallegur með mávastellinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á jólunum nota ég mávastellið og vanda mig við það að hafa mávinn rétt staðsettan. Hann á ekki að vera út á hlið, eins og hann væri að fljúga úr eftirpartíi, eða á hvolfi heldur niðri, helst þráðbeinn. Til að halda í norræna þemað nota ég svört hnífapör frá sænska móðurskipinu, IKEA, og einfaldar servíettur við sem stela athyglinni ekki frá diskunum. Glösin koma svo frá Finnlandi og eru frá Iittala og vínglösin eru úr kristal og koma frá Fredrik Bagger.

Til skrauts notaði ég gamlan aðventukrans og bætti við rauðum blómum í miðjuna sem ég fann í kassa úti í bílskúr. Þessi rauðu blóm voru dregin á flot til þess að fá svolítinn rauðan lit á borðið því hann er svo fallegur með mávastellinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Royal Copenhagen – bláa línan

Þótt mávastellið hafi verið í aðalhlutverki í mínu lífi í meira en áratug þá hefur smám saman bæst í safnið. Síðan mávastellið kom í hús hafa bæst við alls konar hlutir frá Royal Copenhagen með nokkrum ólíkum munstrum því mér fer alltaf að leiðast ef allt er endalaust eins. Þegar ég hnaut um bláu línuna frá Royal Copenhagen þá féll ég fyrir henni. Þetta eru diskar sem eru bæði fallegir hversdags og líka á sparistundum eins og jólum. Það sem þeir hafa fram yfir mávastellið er að þeir mega fara í uppþvottavél.

Þegar ég lagði þá á jólaborðið notaði ég tvo hvíta hördúka frá H&M. Lagði diskana með bláu línunni á borðið og setti röndóttar servíettur við sem fást í Heimili og hugmyndum. Ég notaði kampavínsglös úr IKEA sem minna á tímann í kringum 1922 þegar allt var flæðandi í peningum og allir héldu að partíið myndi endast út lífið. Ég notaði nokkrar gerðir af kertastjökum frá IKEA, Iittala og frá Reflection Copenhagen sem fæst í Snúrunni. Glitrandi kristallinn í Reflection Copenhagen finnst mér alltaf passa við allt og nota ég það gjarnan þegar ég legg á borð. Til þess að koma með örlitla jólastemningu á borðið setti ég greinar í vasa og dreifði þeim um borðið.

Ég hvet ykkur til að leika ykkur þegar kemur að því að leggja á borð. Það má alveg blanda saman ólíkum stílum og stefnum. Treystu innsæinu og leiktu þér. Það gerist allavega ekki neitt ef við prófum okkur ekki áfram!

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál