Vertu eins og kóngur um jólin án þess að vera hlekkjaður við eldavélina

Hér má sjá konfekt með sykurbúðum og salthnetum.
Hér má sjá konfekt með sykurbúðum og salthnetum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru ekki jól alla daga og þess vegna þurfum við að leggja okkur fram um að hafa það sérlega notalegt um jólin. Gera eitthvað sem við gerum ekki á venjulegum litlausum mánudegi. Eitt af því sem skapar góða stemningu er að matreiða eða baka eitthvað ljúffengt sem er ekki á boðstólum hjá okkur alla daga.

Jóladagur er einn besti dagur ársins að mati sumra. Að vera í náttfötunum fram eftir degi, lesa góðar jólabækur og hangsa. Ef þig langar að borða eitthvað annað en afganga af jólamat gæti verið sniðugt að vera búin/n að útbúa ljúffeng salöt sem hægt er að setja ofan á brauð eða hrökkbrauð. Danir eru mjög góðir í að búa til eitthvað ómótstæðilegt ofan á brauð og kalla það „smørrebrød“. Reyndar er það ekki bara matur heldur ákveðin listgrein, eða allavega hjá þeim sem eru mjög góðir í því. Eitt af því sem oft kemur fyrir á dönsku smurbrauðsstöðum er „hønsesalat“. Um er að ræða kjúklingasalat sem er hluti af smurbrauðsmenningu Dana. Slíkt salat nýtur æ meiri viðurkenningar á Íslandi enda er majónesið búið að skila skömminni og okkur allir vegir færir. Majónesan má bara ekki verða gul – þá erum við alveg í ruglinu.
mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir

„Hønsesalat“ með beikoni

300 g af kjúklingabringu

3 dl af grænmetissoði

100 g beikon

250 g sveppir

1 tsk. ólífuolía

100 g hvítur aspas

1 dl majones

1 dl sýrður rjómi

1 tsk. karrí

1 tsk. dijon-sinnep

handfylli púrrulaukur, smátt skorinn

smjör og olía til steikingar

salt og pipar eftir smekk

Aðferð Byrjaðu á því að skera kjúklingabringuna í litla teninga og sjóða í grænmetissoðinu. Það er búið til með því að setja grænmetistening í 3 dl af vatni. Láttu kjúklinginn sjóða í um það bil 20 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn.

Skerðu beikonið í litla bita og settu það á pönnu ásamt smjöri og olíu. Þá eru sveppirnir skornir smátt og steiktir með beikoninu. Þegar beikon og sveppir eru steikt í gegn skaltu taka það af pönnunni. Blandaðu aspasnum saman við og settu svo allt í sigti og láttu fituna renna af.

Nú ætti kjúklingurinn að vera tilbúinn og gott er að sigta hann líka.

Næst skaltu hræra majones og sýrðan rjóma saman og kryddaðu með karríi. Settu sveppi, beikon og aspas saman við ásamt kjúklingi og púrrulauk. Saltaðu og pipraðu eftir smekk. Gott er að búa salatið til daginn áður en það er borðað en það geymist vel í boxi í ísskápnum.

Gott er að setja „hønsesalatið“ ofan á danskt rúgbrauð eða Lífskorn frá Myllunni. Til að fullkomna þessa máltíð er gott að drekka ískalt jólaöl eða hafa nýlagað kaffi með.

Kristinn Magnússon
Sykurlaus kókoskaka

Þegar fólk kemst upp á lag með að baka kökur í skúffu verður ekki aftur snúið. Svona „skúffukökur“ eru nefnilega svo sniðugar. Það er fljótlegra að búa þær til og hverjum er ekki sama þótt sætindamolinn sé ferkantaður og skorinn til. Hin klassíska kókoskaka er í miklu uppáhaldi heima hjá mér. Þar sem ákveðnir fjölskyldumeðlimir, nefni engin nöfn, eru markvisst að minnka sykurneyslu sína ákvað ég að búa til sykurlausa útgáfu af kókoskökunni. Þessir einstaklingar sleiktu út um og þess vegna fékk uppskriftin að fljóta með hér!

4 eggjahvítur

1 dl Good Good sykurlaust síróp

200 g kókosmjöl

Aðferð Byrjaðu á því að stífþeyta eggjahvíturnar og bættu svo sykurlausa sírópinu út í blönduna og hrærðu vel. Að síðustu er kókosmjölinu blandað varlega saman við. Náðu í ágætlega stórt eldfast mót og settu bökunarpappír í botninn. Settu deigið á pappírinn og sléttu vel úr þannig að deigið sé jafnt yfir allt formið. Bakaðu við 150 gráður í 45 mínútur.

Sykurlaus súkkulaðibráð

50 g kókosolía

30 g sukrín, gervisæta

1 dl kakó

1 tsk. vanilludropar

örlítið salt

Aðferð Láttu eins og þú sért að bræða súkkulaði yfir vatnsbaði. Settu vatn í pott, láttu sjóða og settu svo skál yfir. Í þessa skál skaltu setja kókosolíu, sukrín, kakó og vanilludropa og láttu allt bráðna saman. Svo saltarðu smá. Þegar kakan er komin úr ofninum og orðin köld skaltu setja súkkulaðið ofan á. Settu kökuna inn í frysti og láttu hana vera þar þar til hún er orðin ísköld. Þá geturðu tekið hana út, skorið í bita og sett í box inn í fyrsti. Þannig áttu lítinn sykurlausan fjársjóð til að laumast í yfir lestri jólabókanna.

mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir
Karrísalat

Að fá sér rúgbrauð og síld er hluti af jólahefðum okkar Íslendinga. Danir eru hins vegar mjög hrifnir af alls konar síldarsalötum. Hér er uppskrift að karrísalati sem er mjög gott eitt og sér en líka með síld.

3 harðsoðin egg, fínsöxuð

1 epli fínsaxað

1 tsk. kapers

20 g súrar gúrkur, fínsaxaðar

1 msk. púrrulaukur, fínsaxaður

1 dl majones

2 msk. sýrður rjómi

2 tsk. karrí

1 tsk. túrmerik

salt og pipar eftir smekk

Aðferð Byrjaðu á því að harðsjóða eggin. Þegar þau eru tilbúin skaltu kæla þau og skera mjög smátt. Taktu eplið, afhýddu það og skerðu í mjög litla bita. Þá hrærirðu saman majones og sýrðan rjóma, púrrulaukurinn skorinn smátt og líka súru gúrkurnar. Þá er afganginum af innihaldsefnunum hrært saman við og svo skaltu salta og pipra eftir smekk.

Þetta karrísalat er gott ofan á klassískt íslenskt rúgbrauð en líka mjög gott með Lífskorni frá Myllunni. Ef þú vilt bæta síld við þetta partí þá er hún skorin niður og sett ofan á karrísalatið.

mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir

Sörur upptekna fólksins

Að baka sörur fyrir jólin er stór hluti af jólaundirbúningi margra landsmanna. Það er hins vegar mjög tímafrekt að búa til sörur og þess vegna gætu sörur upptekna fólksins verið eitthvað sem einfaldaði jólaundirbúninginn. Þessar sörur eru búnar til í ofnskúffu og því tekur ekki marga klukkutíma að búa þær til.

Möndlubotn

400 g möndluduft

400 g sykur

4 tsk. lyftiduft

6 eggjahvítur

Aðferð Byrjaðu á að aðskilja eggin og setja hvíturnar í hrærivél. Stífþeyttu þær, bættu sykri út í. Þá er möndluduftinu bætt út í ásamt lyftidufti. Setjið bökunarpappír á bökunarplötuna og setjið deigið út á og dreifið vel úr því þannig að það verði jafnt. Bakið við 175 gráður í 20 mínútur.

Sörukrem

250 g smjör

300 g flórsykur

6 eggjarauður

4 msk. kakó

2 tsk. vanilludropar

2 tsk. skyndikaffi

Aðferð Þeyttu eggjahvíturnar þannig að blandan verði létt og falleg. Þá er flórsykrinum bætt út í ásamt kakói, vanilludropum og skyndikaffi.

Þegar botninn er bakaður og búinn að kólna er kreminu smurt á botninn.

Það er smekksatriði hvað á að fara mikið af bræddu súkkulaði ofan á botninn. Sjálfri finnst mér best að hafa mjög mikið súkkulaði og oft nota ég 300 g af súkkulaði ofan á og stundum 400 g ef ég er mjög óþekk. Það er brætt yfir vatnsbaði og sett ofan á. Best er að láta söru upptekna fólksins kólna mjög vel áður en hún er skorin í litla bita. Það er því best að baka þessa snilldaruppskrift þegar það er kalt í veðri þannig að hægt sé að skella bökunarplötunni með sörunni í út á stétt. Svona plötur komast oft ekki í venjulegan frystiskáp. Þegar kakan er orðin vel köld er hún skorin niður og sett í box og inn í frysti. Svo er hægt að lauma sér í einn og einn bita úr frystinum þegar jólastemningin yfirtekur líf okkar og við viljum gera vel við okkur.

mbl.is/Marta María Winkel Jónasdóttir
Kornflexkonfekt

Morgunkorn og súkkulaði fer einstaklega vel saman. Hvernig væri að prófa að blanda saman bráðnu súkkulaði og kornflexi?

300 g súkkulaði

130 g kornflex

Aðferð Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði. Þegar það er bráðið er kornflexinu bætt út í og litlar kökur búnar til með tveimur skeiðum. Best er að setja á bökunarpappír og á disk þannig að kökurnar geti farið strax inn í frysti. Þegar þær eru frosnar skaltu raða þeim snyrtilega í box.

Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál