Lifir lífinu til fulls

Bogmaðurinn 22. nóvember - 21. desember

Elsku Bogmaðurinn minn, það er svo margt búið að vera að gerast hjá þér undanfarið sem mun sýna þér að örlitlu leyti hvert leiðin liggur 2020 og þú munt sjá að þú kannt leikinn, það þarf nefnilega að kunna leikinn að lifa, hvenær maður á að segja og hvenær maður á ekki að segja. Þú munt koma þér út úr öllum þeim aðstæðum sem eru að brenna þig og lifa lífinu til fulls.

Talan sjö er árstalan þín og sumir segja að hún sé heilög tala, en hjá þér táknar hún heppni og gleði sem er tengd tilfinningum og eflingu andlegra hæfileika og næmni. Þú þarft að fylgja þinni fyrstu hugsun, sérstaklega næstu tvo mánuði, því þú verður svo sterkur í því að finna lausnir og laga það sem hefur lagt lykkju á þinn veg.

Ef þú efast um ástina og ert í sambandi, þá mundu það að ef sterkar tilfinningar og ást hafa einhverntímann verið í lífi þínu þá geturðu kallað til þín þær tilfinningar aftur og endurnýjað ástina. Allt sem þú vilt ná árangri í krefst að sjálfsögðu dálítillar vinnu, margir munu endurnýja sambönd sín, ný sambönd eru að fæðast í byrjun árs, en það þurfa að sjálfsögðu ekki allir Bogmenn að hafa aðra manneskju hjá sér til að gera sig heila.

Sumarið verður ljúft og tíðindalítið og þú verður ánægður með það, seinniparturinn á árinu gefur þér það sem þú hefur verið að bíða eftir og áfanginn verður stærri og merkilegri en þig hefði grunað.

Fjárhagslega lítur árið ágætlega út, en veraldleg gæði og peningar eru svo sterkt inni í lífinu þínu síðustu sex mánuði ársins. Flutningar gætu markað gæfurík spor fyrir þig, því þér býðst eitthvað spennandi og öðruvísi húsnæði eða staðsetning fyrir það sem þú ert að gera, af hverju ekki prófa það? Þú átt ekki eftir að sýna ótta undir neinum kringumstæðum, þú ferð í gegnum þetta ár með vindinn í fangið og elskar það.

Þú ert kominn með svo mikla visku til að bjarga þér út úr þeim hættum sem að sjálfsögðu eru alls staðar, því þú átt ekki eftir að taka þetta blessaða líf of alvarlega og ert fæddur á þessa Jörð til að skemmta þér og hafa gaman. Þetta er árið sem þú stendur upp, spennir bogann og hittir nákvæmlega í miðjuna á skotskífunni.

Áramótaknús og kossar, Sigga Kling

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »