Bogamaðurinn: Þú munt finna framtíðarmakann

Elsku Bogmaðurinn minn,

það er búið að ganga á ýmsu, en þú ert búinn að ákveða að þetta ár verði margfalt betra en í fyrra og ég get alveg skrifað undir það. Febrúar gefur þér útkomur og sýnir þér hvar þú stendur í lífinu, því síðustu þrír mánuðir eru aldeilis búnir að marka líf þitt.

Núna er komið að uppgjöri og með svolitlum tilfærslum þá lítur þessi mánuður afskaplega vel út, sjötta skilningarvitið þitt er eitthvað svo kraftmikið og tengt við mikinn árangur og að slaka á er lykillinn að framhaldinu.

Ástin er góð því stressið er að hverfa og ef þú ert nýlega kominn í tengingu við ástarguð eða gyðju, ertu líklega búinn að finna framtíðarmakann. Trygglyndið einkennir þig og traustið til að allt gangi vel færir þér enn meiri kraft og ef þér finnst peningarnir ekki vera að koma til þín í stríðum straumum þá er eitthvað að opnast og annað að lokast tengt því flæði.

Þú átt eftir að nota þennan mánuð vel, byggja upp betri tilveru og vera ánægður með sjálfan þig og það sem þú hefur afrekað. Þér líður betur og betur því þú tengist þinni innri ró, ekkert getur haggað þér sama hvaða stormur veitist að þér, þá tekurðu varla eftir honum og þessi stóíska ró kemur þér á óvart svo þú verður hissa á sjálfum þér.

Þú spáir kannski meira í lífið en hin merkin og verður svo dásamlega heillaður af því sem hinir láta framhjá sér fara. Orkan þín er svo mögnuð, þú sérð alltaf hið jákvæða og aðrar hliðar á hlutunum og þú munt nýta þér þessa undrasýn til að styrkja þig.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is