Sporðdrekinn: Framtíðin er núna

Sporðdrekinn.
Sporðdrekinn.

SPORÐDREKINN | 23. OKTÓBER 22. NÓVEMBER

Elsku Sporðdrekinn minn, það er ekki alltaf auðvelt að tilheyra þessu merki. Það eru alls konar hvirfilbyljir sem hafa mætt þér og þú hefur komist í gegnum þá alla. Þú ert sterkari en nokkurri manneskju datt í hug og þegar þú lendir í aðstæðum sem einkennast af streitu og ósamræmi missirðu orku.

Þú hefur svo sterkt skap og svo mikinn karakter og þótt þú komir þér stöku sinnum í vandræði er það yfirleitt vegna þess þú ert að vernda alla þá sem þú þekkir af mikilli ákefð og umhyggju.

Það sem mun hjálpa þér mest er að hafa mikið fyrir stafni, setja lífið á sterka siglingu og nýta þér skapið, orkuna og trygglyndið sem er svo sterkt í sálu þinni til að halda bara beint áfram. Það er eins og það birtist fyrir þér svo jákvæðar breytingar hvort sem þú sérð það eða ekki og ég fæ alveg gæsahúð þegar ég er að skoða orkuna þína. Þú ert svo ótrúlega sterkur karakter, eins og bambusinn. Hann mun kannski bogna en hann brotnar aldrei.

Ný eða nýleg vinátta streymir inn í líf þitt og gefur þér tilefni til að breyta hlutunum og lífinu. Þú átt það til að gera alltaf það sama og festa þig í endurtekningum með sama fólkinu. En núna sérðu og leggur blessun yfir ný tækifæri og lokar þeim hjólförum sem þér hefur fundist þú vera í. Þú ert einni setningu eða einu símtali frá því að redda málunum, hvort sem það tengist peningum eða einhverju öðru sem er þér mikilvægt eða merkilegt. Fortíðin er ekki til og framtíðin er núna, mundu það hjartagull.

Knús og kossar, Sigga Kling

Frægir í Sporðdrekanum:

Helga Braga Jónsdóttir, leikkona, 5. nóvember

Emmsjé Gauti, rappari, 17. nóvember

Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður, 21. nóvember

Karl Bretaprins, 14. nóvember

Hillary Clinton, stjórnmálamaður, 26. október

Leonardo DiCaprio, leikari, 11. nóvember

Magnús Scheving, frumkvöðull, 10. nóvember

Jón Jónsson, tónlistarmaður, 30. október

Króli, tónlistarmaður, 2. nóvember

Bergur Ebbi, grínisti, 2. nóvember

mbl.is