Krabbinn: Þú veist hvenær þú ert búin/n að finna ástina

Elsku Krabbinn minn,

þú ert svo öflugur að búa til margt og mikið úr litlu. Þú hefur stórhuga hugsanir og metnað, en getur tekið að þér of margt í einu og þá missirðu fókusinn. Einbeittu þér að því sem lætur þér líða vel, því það eina sem maður vill í þessu lífi er að líða vel. Þú nærð að skreyta dagana þína betur en þú nokkurn tímann bjóst við og finnur út að það er svo margt sem þú hefur að hlakka til.

Notaðu skýrari orð og segðu við fleiri ég elska þig, alla vega við tvo eða þrjá á dag. Þá finnurðu nefnilega þessa dásamlegu líðan sem þú átt svo sannarlega skilið. Þú átt eftir að meta svo margt miklu betur og með því kemur enn þá betri líðan. Þér hefur nefnilega verið gefin ofurnæm innsýn í mannssálina og skilur þess vegna fólk svo vel vegna þess þú hlustar og lest svo vel táknmál sálar annarra. Þú gæðir hversdagslífið skemmtilegheitum og hressir við og hrósar fólki eins og enginn sé morgundagurinn.

Í ástinni þolirðu ekki yfirborðskennd samskipti og ef þú ert á lausu og freistast til einnar nætur gamans af og til, til þess að fá smá fjör í lífið þá skiptir það þig í raun engu máli. Því þú veist nákvæmlega hvenær og hver ástin þín er, til staðar, því engill ástarinnar skýtur örvum í hjarta þitt.

Þú ert á merkilegum tímamótum í lífinu, ert að fara að tileinka þér nýjan lífsstíl og ákveður að þótt þú breytir ekki miklu strax tekurðu skrefin þín öðruvísi og jafnvel í allt aðra átt en þú bjóst við og þú átt hreinlega eftir að elska það!

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is