Bogmaðurinn: Gæfan og kærleikurinn eltir þig

Elsku Bogmaðurinn minn,

ég hef það á tilfinningunni að Bogmenn séu í miklum meirihluta miðað við önnur merki á Íslandi. Ég hreyfi mig vart um skref án þess að hitta einhvern skrafhreyfinn Bogmann. Þú hefur litríka og sanna framkomu og það frelsi sem er að koma til þín sem er allt um kring mun gera þig óstöðvandi.

Þetta er skemmtilegur og léttur tími sem þú ert að fara inn í og þú magnar upp litlu hlutina svo þeir verða svo stórir. Það eru nefnilega litlu hlutirnir sem gera lífið. Í þessu frelsi færðu styrk til þess að taka ákvarðanir og það halda þér engin bönd. En þú þarft samt að ákveða hvar þú vilt búa eða eiga heima og ekki flögra með þá ákvörðun. Því ef þú gerir það þá finnurðu ekki kraftinn til að framkvæma það sem þú vilt og óskar þér.

Plánetan þín Júpíter hefur svo jákvæð áhrif á þína velgengni, að sjálfsögðu tengt hagnaði og viðskiptum og því sem þú tekur þér fyrir hendur. Ef þú skoðar vel þá áttu fjöldan allan af vinum og aðdáendum. Hins vegar getur þessi orka líka komið þannig út að þú munt neita þér um lífsins lystisemdir og fundið að freistingarnar geta leitt þig út í vitleysu.

Þú hefur svo sterkar langanir til þess að hafa allt svo flott og fínt. Taktu þig á í því sér finnst vera að letja þig. Þú þarft ekki að kaupa allt, geta allt eða vera allt, því þú ert nóg. Gæfan og kærleikurinnn býr í þessu risastóra hjarta þínu og þetta tímabil gefur þér þann valkost að velja gæfuna eða kærleikann eða bæði, ef þú vilt það. Í þessari stöðu sem þú ert muntu sjá að þú hefur auðmýkt til að skoða hvað hefur gerst, og þar af leiðandi til að fara á góðan byrjunarreit aftur.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is