Hrúturinn: Það býr í þér mikil viðskipta-manneskja

Elsku Hrúturinn minn,

það hefur verið allavegana og eins og allt sé að gerast í einu hjá þér undanfarinn mánuð. En þú nærð alltaf að bjarga þér fyrir horn. Þú ert töluvert að spekúlera í peningamálum og mörg tækifæri bjóðast þér að laga til hjá þér hvað svo sem þú vilt laga. Ekki vera reiður út í einhvern annan út af þínum fjármálum, heldur hugsaðu „ég klára þetta“, „ég redda þessu“, þetta er ekkert mál. Stattu síðan upp og kláraðu það sem þú þarft að gera. Það býr í þér mikil viðskipta-manneskja, en það þýðir samt ekki að þú rekir venjulegt fyrirtæki. Lífið er fyrirtæki svo slappaðu af og slakaðu á streitunni sem heftir þig svo oft við jörðina í orðsins fyllstu merkingu.

Það gengur svo oft þannig fyrir sig að eftir því sem þú öðlast meira og sérð að þú hefur náð töluvert langt með lagni, þá verðurðu bara enn stressaðri. Ég hugsa að þú værir hamingjusamastur á eyðieyju með veiðistöng. Að byggja þér kofa með höndunum einum saman og að bjarga þér út úr hverskyns aðstæðum liggur snillingurinn í þér.

Ef þú hefur þurft að bera álag í langan tíma vegna þess að þú vilt vera ábyrgur í öllu getur það haft áhrif á heilsufar þitt, því hugurinn og líkaminn eru ein eining. Það sem á eftir að hjálpa þér áfram núna er að þegar þú hækkar sjálfstraust þitt upp, og það er þitt að gera það, þá er enginn eins orðheppinn í tjáningu eða öðru listformum. Þegar þú ert upp á þitt besta, þá bræðir þú nágrannanna, vinnustaðinn eða þjóðina ef því er að skipta. Svo byggðu þig upp á hverjum degi og gagnrýndu engan mann. Því þegar þú gagnrýnir eða talar illa um aðra, að fólk sé svona eða hinsegin og ömurlegt og vitlaust kemur það eins og boomerang inn í lífsorkuna þína. Og það sest einhversstaðar nálægt þér. Svo þess vegna er þessi mánuður svo mikilvægur fyrir þig, til að halda sterkt áfram og að vita þú getur hlutinn hjálparlaust. En það er ekki þarmeð sagt þú eigir að leita ráða, því að allir vita eitthvað en enginn veit allt.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is