Ljónið: Þú geislar eins og enginn sé morgundagurinn

Elsku Ljónið mitt,

núna er tíminn til þess að líta upp. Til þess að sjá að það verður endir á erfiðum aðstæðum. Þú þarft að sýna frelsinu þínu umhyggju  og að vera alveg fullviss um það að þú hafir það sem þarf  til þess að njóta þín. Það er mikilvægt fyrir þig að skoða það að skipta um staðsetningu, vera meira á ferð og flugi og að hafa lífið ekki of einhæft. Það er allt hægt, en það er þitt að framkvæma. Þú færð viðurkenningu fyrir mjög sérstök afrek eða hluti og í þeim aðstæðum að þú þarft að vera „team player“, það er að það þurfa að vera fleiri með í leikritinu en bara þú.

Þú berst eins og brjálað Ljón fyrir að rétt skuli vera rétt og grætur hástöfum ef þú getur ekki þotið með það á þúsund kílómetra hraða. Safnaðu liði og settu fólk í réttar stöður í kringum þig, því það eiga svo margir eftir að hlusta á þig og vera sammála þínum skoðunum. Þú ert ekki í essinu þínu nema að þú sért að berjast fyrir einhverju og ef þú stoppar er eins og allt stoppi.

Það er mjög merkilegt í þessum mánuði að í kringum þann 18. mars gefur þér meiri sanngirni í sambandi við samninga eða verkefni sem þig hefur kviðið fyrir að fái ekki rétta útkomu. Þú geislar eins og enginn sé morgundagurinn og laðar til þín aðdáendur hvaðanæva að. Þetta er vegna þess að þú ert brjóstgóð manneskja gædd ríku innsæi þótt þú sért svolítið furðulegur.

Þitt hlýja hjartalag gefur þér að þú grætur vegna þess sem er að gerast í heiminum. Þetta er vegna þess þú ert svo beintengdur veröldinni og þá sveiflast þú eins og lauf í vindi. Þú gætir hrokkið í depurð eina mínútuna og orðið ofsaglaður þá næstu. Þú hefur þessa hvatvísi til að segja það sem þér dettur í hug og það verða ekki alltaf allir ánægðir með það. Þú getur samt ekki fengið alla til að líka vel við þig, svo haltu bara áfram þínu striki og þá fer allt vel.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is