Tvíburinn: Ekki hleypa óhamingju annarra inn

Elsku Tvíburinn minn,

þú hefur þurft að taka nýjar ákvarðanir sem þú bjóst ekki við að þurfa taka. Og ert þar af leiðandi staddur á tímabili sem þú reiknaðir ekki alveg með. Þú ert mikið að hugsa um annarra manna líðan og getur það að einhverju leyti stoppað þínar eigin áætlanir. Þú ert að læra svo mikla þolinmæði, en það er nú hvorki uppáhalds orðið eða orka þín. Eins snöggt og breytingar urðu hjá þér, jafn hratt mun það aftur breytast í það horf sem þú vilt hafa það.

Það eru mjög jákvæðar fréttir að berast þér. Ekki bara ein, heldur fleiri. Það sem ég er að tala um kemur sterkt til þín eftir fyrstu vikuna í maí. Þá verður líf þitt einna líkast því og þegar beljunum er sleppt út á vorin; endalaust þakklæti fyrir það að fjötrarnir séu lausir. Það eina sem gæti hindrað þig á þessari vegferð er að þú vorkennir sjálfum þér, því þá nærðu ekki fluginu. Það eina sem ég persónulega man að mamma sagði mér þegar ég var að alast upp var: „Ekki vorkenna sjálfri þér, það er bráðdrepandi“. Þessi orð hafa orðið mér að svo miklu gagni þegar mér hefur fundist ég eiga svo ógurlega bágt.

Það verður að sjálfsögðu ekki friður allt í kringum þig. Mundu að hamingjan býr innra með þér, svo hleyptu ekki annarra manna óhamingju inn, það er ekki í þínum verkahring. Það er magnað fólk sem kemur inn í líf þitt á næstu þremur mánuðum og svo margir að bjóða þig velkominn og vilja hjálpa þér að láta drauma þína rætast í öllum litum.

Þitt lífsmottó á að vera að segja já, þó að þú þorir ekki eða nennir ekki einhverju. Því þá munu þessi einföldu já sýna þér hafsjó af nýjum möguleikum. Sem er nákvæmlega rétta leiðin að takmarkinu sem þú hefur vonast eftir.

Knús og kossar,

Sigga Kling.

mbl.is